Erlent

Fulltrúar Írans og BNA ræddust við

Forsætisráðherra Íraks biðlaði, á ráðstefnu í Bagdad í dag, til nágrannaríkja sinna um aðstoð við að binda enda á vargöldina sem ríkir í landinu. Fulltrúar Bandaríkjanna og Írans ræddust þar við með beinum hætti en stjórnmálasamband á milli ríkjanna hefur legið niðri í 28 ár.

Íraska ríkisstjórnin stóð fyrir Bagdad-ráðstefnunni en hana sátu erindrekar Bandaríkjanna, helstu nágrannaríkja Íraks, auk fulltrúa Arababandalagsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Í setningarræðu sinni í morgun sagðist Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, vonast eftir stuðningi nágranna sinna í baráttunni við þá hryðjuverkahópa sem standa fyrir skálmöldinni í landinu.

Í lok dags greindi Hosyar Zebari utanríkisráðherra Íraks svo frá því að samþykkt hefði verið að setja á fót starfshópa um helstu úrlausnarefni landsins. Það sem bar hins vegar helst til tíðinda á ráðstefnunni var að fulltrúar Bandaríkjanna og Írana ræddust þar við með beinum hætti en sem kunnugt er hefur stjórnmálasamband á milli ríkjanna legið niðri frá klerkabyltingunni í Íran 1979. Kjarnorkuáætlun Írans hefur svo síst orðið til að bæta samskipti ríkjanna. Þótt viðræðurnar í dag hafi verið stuttar þykja þær engu að síður til marks um þíðu sem framhald gæti orðið á. Meðan framtíð Íraks var rædd í öruggu skjóli ráðstefnusala græna svæðsisins í Bagdad héldu öfgamenn áfram ofbeldisverkum sínum. Þannig létu tuttugu manns lífið í sjálfsmorðsárás í Sadr-hverfi höfuðborgarinnar í dag og hátt í fimmtíu særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×