Erlent

Trylltur köttur

Kisi brást illa við heimsókn ættingja síns.
Kisi brást illa við heimsókn ættingja síns.

Kona á sextugsaldri, í Idaho í Bandaríkjunum, var flutt á sjúkrahús með meira en tuttugu bitsár eftir að heimilisköttur hennar trylltist og réðist á hana. Afbrýðisemi virðist hafa ráðið árás kattarins. Nágranni konunnar hafði komið með annan kött að dyrum hennar, því hann hélt að það væri heimiliskötturinn.

Hinn rétti heimilisköttur fór með matmóður sinni til dyra og þegar hann sá ættingja sinn fyrir utan rauk hann upp eins og naðra. Slökkviliðið var kallað til aðstoðar og tókst að hemja kvikindið og flutti konuna á sjúkrahús. Bitsár hennar voru sögð djúp, auk þess sem hún var öll klóruð.

Sjúkrahúsið vildi engar upplýsingar gefa Associated Press fréttatofunni um líðan konunnar, en vaktstjóri hjá slökkviliðinu sagði að sér hefði heyrst á konunni að hún ætlaði að skila kettinum í gæludýrabúðina þar sem hún hafði fengið hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×