Erlent

Vaknaði og féll svo aftur í dá

Læknar í Bandaríkjunum standa ráðþrota frammi fyrir ráðgátunni um konuna sem vaknaði úr 6 ára dái, vakti í 3 daga og féll síðan aftur í dá. Þeir kunna engar skýringar á því hvað hafi vakið hana og síðan valdið því að hún féll aftur í dá.

Christa Lilly er 49 ára. Fyrir sex árum fékk hún hjartaáfall og síðan heilablóðfall og féll í dá. Augu hennar voru opin en hún gerði sér á enga grein fyrir umhverfi sínum. Þegar hún svo vaknaði óvænt fyrr í þessum mánuði mundi hún síðast eftir heilablóðfallinu og síðan ekki meir. Þó hafði hún fjórum sinnum áður rankað við sér í mjög skamman tíma.

Móðir Lilly, Minnie Smith, hefur annast hana síðustu 6 árin. Hún segist hafa vaknað á sunnudagsmorgun eins og hvern annan morgun. Farið inn til dóttur sinnar og boðið henni góðan dag. Hún hafi þá svarað.

Lilly var í fyrstu fullviss um að nú væri árið 1986 og George Bush eldri væri forseti. Börn hennar, þar á meðal 12 ára dóttir hjálpuðu henni að átta sig. Síðan hún féll í dá hefur Lilly orðið amma. Hún á nú 3 barnabörn. Christa talaði við fréttamann CBS og sagði þetta dásamlegt og sagðist mjög glöð.

Randall Björk, taugalæknir, segir þetta kraftaverki líkast. Allt sé þetta hið dularfyllsta og hann geti ekki skýrt þetta.

Hamingjan var þó skammvinn og þremur dögum eftir að hún vaknaði féll Christa Lilly aftur í dá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×