Erlent

Pólskum kennurum bannað að tala um samkynhneigð

Pólskir kennarar, sem kynna og stuðla að samkynhneigð, verða reknir samkvæmt nýju frumvarpi sem áætlað er að verði að lögum eftir rúman mánuð. Aðstoðarmenntamálaráðherra Póllands skýrði frá þessu í dag, mannréttindahópum í landinu til mikillar mæðu. Engu að síður segja stjórnvöld í Póllandi að lögin séu ekki ætluð gegn samkynhneigðum kennurum í landinu.

„Í næsta mánuði munum við leggja lokahönd á lög sem banna að tala vel um samkynhneigð í skólum í landinu," sagði Miroslaw Orzechowski, stjórnarmeðlimur og félagi í Pólska fjölskylduflokknum. „Hverjum sem kynnir eða stuðlar að þessari og annarri afbrigðilegri hegðun verður refsað," bætti hann við. Ekki var þó skilgreint hvar mörkin væru né hvernig refsingu kennararnir sem gerðust brotlegir við lögin mættu búast við.

Evrópusambandið hefur ásakað flokk Orzechowski um að stuðla að auknu kynþátta- og útlendingahatri í Póllandi. Skrúðgöngur samkynhneigðra hafa meðal annars verið bannaðar í höfuðborginni Varsjá þar sem þær kynna og stuðla að lífsstíl sem er öðruvísi en hinn hefðbundni kaþólski lífsstíll meirihluta pólsku þjóðarinnar.

Búist er við mótmælum í Varsjá um helgina vegna frumvarpsins og búast skipuleggjendur við því að fleiri en tíu þúsund manns eigi eftir að sækja mótmælin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×