Erlent

Kviknaði í eftir að eldingu laust niður

Guðjón Helgason skrifar

Miklir eldar loga nú í olíuvinnslustöð í Oklahóma í Bandaríkjunum eftir að eldingu laust niður í geymslustöð þar. Eldtungurnar teygðu sig langt upp í himininn í morgun og þykkan, svartan reyk lagði yfir næsta nágrenni. Slökkviliðsmenn segja eldinn hafa kviknað í Wynnewood olíuvinnslustöðinni í gær þegar eldingu hafi slegið niður í geymslutanki þar sem voru 50 þúsund tunnur af ómeðhöndluðu bensíni. Eldur blossaði það upp og læsti hann sig svo í öðrum geymslutanki þar sem var að finna 30 þúsund tunnur af díselolíu.

Engar fréttir hafa borist af slysum á fólki og ekki hefur þurft að rýma nærliggjandi íbúðarhús enn sem komið er. Íbúar í næsta nágrenni fundu þó greinilega fyrir sprengingunum sem urðu. Vegum að hreinstunarstöðinni hefur verið lokað fyrir umferð.

Þetta er í annað sinn á einu ári sem eldur kviknar í þessari vinnslustöð. í Maí í fyrra kviknaði eldur í leiðslum og varð að flytja um hundrað og fimmtíu íbúa í nærliggjandi húsum á brott. Viku síðar lak svo sýra úr geymslu sem hafði eyðilagst í eldinum og varð þá að flytja fleiri íbúa á brott. Vel á annað hundrað manns vinna í vinnslustöðinni sem er um 68 kílómetrum suður af Óklahómaborg. Heilbrigðisyfirvöld segja margt ábótavant í öryggismálum þar en það kom í ljós eftir fyrri brunann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×