Erlent

Danir börðust í sex tíma fyrir lífi sínu

Óli Tynes skrifar
Danskir hermenn í Írak.
Danskir hermenn í Írak.

Danskir hermenn sem lentu í fyrirsát í Írak síðastliðinn mánudag börðust í sex klukkustundir fyrir lífi sínu, áður en hjálp barst. Einn þeirra féll og fimm særðust. Danirnir voru umkringdir og það var skotið á þá úr sprengjuvörpum, þungum vélbyssum og hríðskotarifflum, auk þess sem kastað var á þá handsprengjum.

Lítill flokkur danskra hermanna var á eftirlitsferð í bænum Al-Hartha, þegar árás var gerð á þá.

Danirnir leituðu skjóls í nærliggjandi húsi, og svöruðu skothríðinni. Á leið að húsinu var einn þeirra skotinn til bana. Um leið og Danirnir tilkynntu um árásina breytti annar danskur herflokkur um stefnu og fór félögum sínum til aðstoðar.

Þeir urðu hinsvegar fyrir bílsprengju á leiðinni, sem eyðilagði einn brynvagn þeirra og særði fjóra hermenn og íraskan túlk. Dönsku hermennirnir deila herbúðum með breskri herdeild. Bretarnir sendu skriðdreka og heila hersveit fótgönguliða á vettvang.

Þeir þurftu að berjast alla leið að húsinu þar sem Danirnir voru og gátu hrakið árásarmennina á brott, meðan þyrlur sóttu hina særðu Dani og fluttu á sjúkrahús. Þeir þurftu svo að berjast alla leiðina út úr bænum aftur og til herbúða sinna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×