Erlent

Nauðguðu, pyntuðu og myrtu heila fjölskyldu

Óli Tynes skrifar
Dalítar búa í hreysum. Þeir eru umsvifalaust myrtir ef þeir sækja í betri hverfi.
Dalítar búa í hreysum. Þeir eru umsvifalaust myrtir ef þeir sækja í betri hverfi.

Íbúar í smábænum Kherlani á Indlandi urðu svo reiðir þegar lágstéttarfjölskylda keypti sér lóð í bænum að þeir réðust á heimili hennar. Þeir nauðguðu, misþyrmdu og myrtu alla sem þeir náðu í. Þetta gerðist í september á síðasta ári, en málið er fyrst nú komið fram í dagsljósið. Í Bhotmange fjölskyldunni voru hjón, 17 ára dóttir og tveir synir 21 og 23 ára. Yfir 100 mann réðust á heimilið.

Hinum 48 ára gamla föður tókst að fela sig og mátti hlýða á ópin og veinin meðan hver maðurinn af öðrum nauðgaði konu hans og dóttur. Þeim var jafnframt misþyrmt og þær svo myrtar. Synirnir voru barðir í hel með keðjum og öxum eftir að kynfærum þeirra hafði verið misþyrmt og andlit þeirra afskræmd. Líkunum var kastað utan við bæinn.

Bæjarbúar komu svo saman og sammæltust um að aldrei yrði minnst á þennan atburð.

Bæði faðirinn og vinir fjölskyldunnar kærðu málið til lögreglu, sem sendi menn á vettvang. Þeir trúðu ekki fásögninni og aðhöfðust ekkert. Það var ekki fyrr en líkin fundust að skriður komst á málið. Lögreglumönnunum var vikið úr starfi. Yfirvöld buðu eiginmanninum bætur sem hann neitaði að þiggja.

Bhotamange fjölskyldan var af stétt dalíta, sem kallaðir eru hinir stéttlausu á Indlandi. Þeir eru 167 milljónir talsins en njóta engra mannréttinda. Hópur dalíta hefur nú tekið sig saman um að kynna stöðu sína á netinu, í von um að eitthvað gerist.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×