Erlent

Fundur rússa og ESB endar í þykkju

Leiðtogar Evrópusambandsins og Rússlands skiptust á harðri gagnrýni vegna mannerttindarmála á ráðstefnu í Rússlandi í dag. Fundur leiðtoganna sýndi að aðilarnir skiptast í tvo andstæða hópa. Angela Merkel kanslari Þýskalands, sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, lét í ljós áhyggjur vegna frétta af því að mótmælendum og fréttamönnum hefði verið meinað að komast að fundarstaðnum. Vladimir Putin forseti Rússlands svaraði í sömu mynt og sagði að Rússar í Eistlandi væru ofsóttir. Fundurinn var haldinn við Volgubakka í borginni Samara um 1.000 km frá Moskvu. Fréttaskýrendur segja að andrúmsloftið á fundinum lýsi versnandi samskiptum milli Evrópusambandsins og nágranna þess í austri. Deilur hafa staðið milli Moskvu og landa eins og Eistlands og Póllands. Þá hafa deilur risið milli Moskvu og Brussel vegna stöðu mála í Kosovo, auk deilna í orku- og viðskiptamálum.

Tengdar fréttir

Meinuðu Kasparov og fréttamönnum að komast á fundarstað

Rússneska lögreglan hindraði í morgun mótmælendur og fréttamenn í því að fljúga á fundarstað Evrópusambandsins og Rússa í Samaraborg. Meðal þeirra sem voru stöðvaðir var Garry Kasparov stórmeistari í skák. Vélinni seinkaði um klukkutíma og fór í loftið með einn þriðja fyrirhugaðra farþega, en hvorki mótmælendur né fréttamenn.

Mikil spenna á fundi Rússa og ESB

Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varaði Rússa í dag við einingu innan sambandsins. Ef vandamál væru við eitt ríki innan þess, væri það vandamál allra aðildarlandanna. Ummælin lét Barroso falla eftir fund milli ESB og Rússa. Hann sagði einnig að sambandið væri byggt á lögmálum um samstöðu. Fjölda mómælenda var meinaður aðgangur að ráðstefnustaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×