Fótbolti

Hildebrand dreymir um tvöfaldan sigur

Timo Hildebrand er aðalmaðurinn í Stuttgart.
Timo Hildebrand er aðalmaðurinn í Stuttgart. MYND/Getty

Timo Hildebrand, markvörður og fyrirliði Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni, býst við að spila sínar erfiðustu 90 mínútur á ferlinum gegn Energie Cottbus í lokaumferð deildarinnar í dag. Stuttgart nægir jafntefli til að tryggja sér þýska titilinn og segir Hildebrand það vera árangur sem engum hefði órað fyrir í upphafi tímabilsins.

“Ég er nokkuð viss um að allt verður fljótandi í tárum,” sagði Hildebrand, aðspurður um hver viðbrögð hans og liðsfélaganna yrðu ef titilinn yrði þeirra. Stuttgart hefur ekki orðið þýskur meistari síðan 1992 og eftir að hafa verið í 3-4. sæti lengst af leiktíð hafa níu sigurleikir í röð komið liðinu á toppinn nú þegar aðeins ein umferð er eftir. Stuttgart er enn fremur komið í úrslit bikarkeppninnar og á því góða möguleika á að vinna tvöfalt í ár.

“Það yrði með ólíkindum ef við verðum tvöfaldir meistarar. Sem lítill drengur leyfði ég mér að dreyma um að Stuttgart vinni tvöfalt,” segir Hildebrand, sem hefur verið í herbúðum liðsins alla sína tíð.

Búist er við að 55 þúsund manns mæti á Gottlieb-Daimler Stadium leikvanginn í Stuttgart í dag til að fylgjast með leiknum við Cottbus. Af allt er eðlilegt ætti Stuttgart að vinna tiltölulega auðveldan sigur, en Cottbus er í 13. sæti af 18 liðum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×