Erlent

Þegar Emma varð reið

Óli Tynes skrifar
Emma varð VERULEGA reið.
Emma varð VERULEGA reið. MYND/AP-ÚR SAFNI

Það hafa verið sagðar sögur af konum sem hafa farið með skærin í fataskáp eiginmannsins í skilnaðardeilum. Ekki hún Emma Thomason. Hún gerði gott betur. Emma býr í Whitehaven í Bretlandi. Hún var að fara að ganga að eiga Jason Wilson, kærastann sinn til margra ára. Þau eru bæði rúmlega tvítug og voru farin að búa saman.

Um daginn stoppaði Jason á kránni til þess að fá sér öl. Á meðan hann sat þar hringdi Emma og bað hann um að koma heim. Jason sagði að hann ætlaði að fá sér einn öl í viðbót. Emma varð reið og þau rifust þartil Emma skellti á.

Svo fór Emma og tók öll fötin hans Jasons. Og alla munina hans Jasons. Og setti þetta allt inn í bílinn hans Jasons. Svo keyrði Emma bílinn hans Jasons niður á höfn. Tók af honum handbremsuna og...plask.

Jason er nú að reyna að selja giftingarhringana til þess að geta keypt sér nærbuxur og sokka til skiptanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×