Erlent

Tólf dæmdir fyrir morð á serbneskum forsætisráðherra

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Serbneskur dómstóll hefur dæmt 12 menn fyrir morðið á hinum vesturlandasinnaða forsætisráðherra Zoran Djindjic í Belgrad árið 2003. Allir hinna dæmdu höfðu neitað ákærunum, en þeir eru meðal annars meðlimir öryggislögreglunnar og eru taldir tengjast mafíuforsprökkum.

Tveir fyrrum lögreglumenn Milorad Ulemek og Zvezdan Jovanovic fengu 40 ára fangelsisdóma. Þeir eru sagðir vera forsprakkar samsærisins.

Ákæruvaldið hélt því fram að Djindjic hafi verið drepinn til að koma í veg fyrir umbætur, meðal annars á grunuðum stríðsglæpamönnum.

Þetta var í fyrsta sinn sem mál var dæmt í sérstökum rétti í Belgrad fyrir skipulagða glæpi.

Sumir hinna 10 höfðu þjónað sem hermenn í átökunum í Bosníu, Króatíu og Kosovo.

Talað er um málið sem réttarhald aldarinnar í Serbíu. Ýmis vandkvæði komu þó upp í ferli þess. Tvö vitni voru myrt, einn dómari sagði upp störfum og annar fékk morðhótanir.

Djindjic forsætisráðherra var að stíga úr bíl sínum fyrir utan byggingu ríkisstjórnarinnar í Belgrad þegar hann var myrtur af leyniskyttu 12. mars 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×