Erlent

Fyrsti fundur Írana og Bandaríkjamanna í 30 ár

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Íranar og Bandaríkin héldu í morgun fyrsta fund sinn í þrjá áratugi. Öryggismál í Írak voru eina umræðuefni fundarins og ekki var minnst á kjarnorkuáætlun Írana. Bandaríkjamenn vöruðu Írana við að styðja við herskáa öfgahópa í Írak.

Erindrekar ríkjanna í Írak, Bandaríkjamaðurinn Ryan Crocker og Íraninn Hassan Kazemi Qomi hittust í Baghdad í morgun. Rætt var um öryggismál Íraka og ofbeldi öfgahópa í landinu. Bandaríkin ásökuðu Írana um að útvega herskáum hópum í írak tækni og stuðning.

Eftir fundinn sagði Crocker að Kazemi hafi ekki brugðist við ásökununum en hefði lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Írak.

Íranar minntu Bandaríkin á að sem setulið bæru þeir lagalega skyldu til að stuðla að öryggi í landinu. Ekkert lát er á ofbeldi í landinu, en á sama tíma og fundurinn stóð yfir sprakk bílsprengja í Bagdad þar sem 21 létust og sextíu og sex slösuðust.

Engin niðurstaða náðist á fundinum og annar var ekki ákveðinn. Fundurinn markar þó tímamót í viðmóti Bandaríkjanna til Íran, en þeir hafa fryst samskipti við Teheran frá árinu 1980.

Þess má til gamans geta að Ryan Crocker sendiherra Bandaríkjanna er Íslandsvinur. Á leið sinni frá Evrópu til Bandaríkjanna fyrir 23 árum, sá hann að Reykjavíkurmaraþon var að hefjast. Hann breytti því miðanum og hljóp maraþonið á þremur klukkustundum, átján mínútum og tuttugu og fimm sekúntum, áður en hann hélt leið sinni áfram til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×