Erlent

Bandaríkin vilja herða refsiaðgerðir gegn Súdan

Jónas Haraldsson skrifar
MYND/AP
Bandaríkjamenn ætla að herða refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Súdan vegna ástandsins í Darfúr-héraði landsins.

Bandaríkin munu líka berjast fyrir harðari aðgerðum gegn súdönskum stjórnvöldum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðirnar eiga að beinast sérstaklega gegn forseta landsins, Omar al- Bashir. George Bush, forseti Bandaríkjanna, mun flytja tilkynningu þessa efnis á hádegi í dag.

Nýju refsiaðgerðirnar felast í því að banna enn fleiri fyrirtækjum í olíubransanum að eiga viðskipti við og í Súdan. Einnig á að herða aðgerðir gegn grunuðum stríðsglæpamönnum. Þá á að herða þær refsiaðgerðir sem þegar eru í gildi og reyna að banna vopnusölu til stjórnvalda í Súdan. Forseti landsins neitar því að um alvarlegt ástand sé að ræða og segir alþjóðasamfélagið vera að gera úlfalda úr mýflugu.

Fleiri en tvær milljónir manna hafa flúið heimili sín vegna ástandsins í Darfúr héraði Súdan. Þá er talið að rúmlega 200 þúsund hafi verið drepin í átökunum, sem hafa staðið yfir síðastliðin fjögur ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×