Viðskipti erlent

Orðrómur um yfirtöku á Alcoa

Gengi hlutabréfa í bandaríska álrisanum Alcoa, sem meðal annars rekur álver á Reyðarfirði, hækkaði um 2,8 prósent í kauphöllinni í Franfurt í Þýskalandi í dag eftir að breska blaðið Times greindi frá því að ástralska náma- og álfyrirtækiðBHP Billiton sé að íhuga að gera 40 milljarða dala, tæplega 2.500 milljarða króna, yfirtökutilboð í álrisann.

Fréttaveitan Bloomberg segir yfirtökuáætlum BHP Billiton skammt á veg komna og hafi stjórnendur námafyrirtækisins ekki átt fund með Alcoa um málið.

Bloomberg segir nokkuð líklegt að yfirtökutilboð verði lagt fram, ekki síst eftir forstjóraskipti hjá BHP Billiton í október en þá stígur Charles Goodyear úr sæti forstjóra fyrir Mariusi Kloppers, sem þykir mjög jákvæður fyrir yfirtökunni.

Gengi hlutabréfa í Alcoa hækkaði um 2,8 prósent, 87 sent, og stóð í 31,87 evrum á hlut í Franfurt í dag. Gengi bréfanna hækkaði um 7 pens á markaði í Lundúnum í Bretlandi og standa í 1.365 pensum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×