Fótbolti

Kubica efast um kraftaverkamátt páfa

Kubica slapp ótrúlega eftir árekstur á 300 kílómetra hraða
Kubica slapp ótrúlega eftir árekstur á 300 kílómetra hraða AFP

Pólski ökuþórinn Robert Kubica í Formúlu 1 vill ekki meina að það hafi verið hreinræktað kraftaverk þegar hann slapp að mestu ómeiddur úr skelfilegum árekstri í Kanadakappakstrinum fyrr í þessu mánuði. Fréttastofa í Póllandi vill meina að um kraftaverk frá Jóhannesi Páli páfa hafi verið að ræða.

Kubica er fæddur í Krakow í Póllandi líkt og Jóhannes Páll páfi heitinn og ekur Kubica með nafn hans skrifað á hjálminn sinn. Pólska fréttastofan er hörð á því að Kubica hafi sloppið fyrir náð kraftaverks frá Jóhannesi Páli en Kubica sjálfur er ekki á því að taka svo djúpt í árina þó hann hafi sloppið með skrámur eftir árekstur á 300 km hraða.

"Ég veit ekkert um þetta. Það koma oft fréttir frá Póllandi sem eru ekki á rökum reistar. Ég veit ekki hvað bjargaði mér en ég er í heilu lagi og það er auðvitað jákvætt," sagði Kubica og hefur eflaust dregið eitthvað úr spenningi þeirra fjölmörgu sem vilja safna prikum handa páfanum fyrrverandi með það fyrir augum að gera hann að dýrlingi í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×