Viðskipti erlent

Líkur á stýrivaxtahækkun í Japan

Toshihiko Fukui, seðlabankastjóri Japans, sem segir að bankinn muni hækka stýrivexti haldi verðhjöðnun áfram.
Toshihiko Fukui, seðlabankastjóri Japans, sem segir að bankinn muni hækka stýrivexti haldi verðhjöðnun áfram. Mynd/AFP

Greinendur í Japan telja líkur á að japanski seðlabankinn hækki stýrivexti í þriðja sinn á sjö árum í ágúst vegna verðhjöðnunar þar í landi upp á 0,1 prósent í maí,  fjórða mánuðinn í röð.

Stýrivextir í Japan voru núllstilltir í ágúst árið 2000 til að blása lífi í hagvöxt í kjölfar efnahagslægðar sem gekk yfir Asíu. Þeir voru hækkaðir um 25 punkta síðasta sumar og á ný í byrjun árs og standa þeir nú í 0,5 prósentum.

Greinendur fréttaveitunnar Bloomberg telja að viðvarandi verðhjöðnun samfara stöðugu atvinnuleysi upp á 3,8 prósent styðji spár þeirra. Atvinnuleysi í Japan hefur ekki verið minna síðan árið 1998. Þetta er í samræmi við það sem haft hefur verið eftir Toshihiko Fukui, seðlabankastjóra Japans, en hann hefur sagt seðalbankann ætla að hækka stýrivexti haldi verðhjöðnunin áfram.

Gengi japanska jensins lækkaði lítillega gagnvart bandaríkjadal vegna áforma seðlabankans að hækka stýrivexti á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×