Fótbolti

Hitzfeld ánægður með nýju leikmennina

Nýju leikmennirnir hjá Bayern finna sig vel. Frá vinstri: Miroslav Klose, Franck Ribery, Luca Toni. Lengst til hægri er svo þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski
Nýju leikmennirnir hjá Bayern finna sig vel. Frá vinstri: Miroslav Klose, Franck Ribery, Luca Toni. Lengst til hægri er svo þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski NordicPhotos/GettyImages

Ottmar Hitzfeld, þjálfari Bayern Munchen, segist ekki geta beðið eftir að leiktíðin hefjist í Þýskalandi eftir að félagið pungaði út 70 milljónum evra til leikmannakaupa í sumar. Hann segir nýju leikmennina ekki aðeins smellpassa inn í liðið á vellinum heldur séu þeir allir góðir drengir.

"Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart hvað þessir strákar eru að smella vel inn í liðið á svona stuttum tíma. Við vorum ekki aðeins að kaupa hágæða leikmenn - heldur eru þetta vænir strákar hver og einn," sagði Hitzfeld.

Bayern keypti í sumar framherjann Luca Toni frá Fiorentina, Miroslav Klose frá Werder Bremen og franska landsliðsmanninn Franck Ribery svo einhverjir séu nefndir, en Bayern hefur aldrei áður í sögunni eytt svo grimmt á einu sumri.

"Ég get ekki beðið eftir að leiktíðin hefjist á ný. Venjulega er maður dálítið taugaóstyrkur áður en leiktíðin hefst því pressan er mikil, en það sem við erum að horfa á hérna er gríðarlegur liðsstyrkur," sagði Hitzfeld.

Bayern olli miklum vonbrigðum í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og verður fyrir kjölfarið ekki með í Meistaradeildinni í vetur. Þetta var lélegasti árangur liðsins í meira en áratug, en nú hefur verið blásið í herlúðra og ljóst að liðið verður ekki árennilegt með Hitzfeld við stjórvölinn næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×