Fótbolti

Gunnar Heiðar á leiðinni til Våleranga

Aron Örn Þórarinsson skrifar

Landsliðsmaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er þessa stundina á leiðinni til Noregs þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá úrvalsdeildarliðinu Våleranga í fyrramálið. Ef Gunnar Heiðar stenst skoðunina mun hann skrifa undir tíu mánaða lánssamning við félagið, eða til lok júní. Þetta staðfestir Ólafur Garðarson, umboðsmaður leikmannsins, í samtali við Vísi í dag.

Gunnar Heiðar er samningsbundinn þýska liðinu Hannover 96 en hann hefur ekki verið í náðinni hjá þjálfara liðsins, þrátt fyrir að hafa staðið sig mjög vel á undirbúningstímabili liðsins. Gunnar Heiðar skoraði mark Íslands í vináttulandsleiknum gegn Kanada í síðustu viku.

„Það voru nokkur lið á eftir Gunnari á Norðurlöndunum og eitt frá Belgíu. Våleranga, sem er eitt stærsta liðið á Norðurlöndunum og tekur þátt í UEFA-keppninni, sýndi Gunnari mestan áhuga" sagði Ólafur. „Strákurinn vill bara spila fótbolta og Hannover vildi ekki selja hann, og því vildi hann fara á lánssamning."

Heimildir Vísis herma að Gunnar Heiðar muni ekki lækka í launum fari það svo að leikmaðurinn skrifi undir hjá Våleranga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×