Viðskipti erlent

Óróleikinn fjármálafyrirtækjum að kenna

Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir að fasteignalánafyrirtæki verði að líta í eigin barm enda hafi þau veitt einstaklingum með litla greiðslugetu há lán til fasteignakaupa.
Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir að fasteignalánafyrirtæki verði að líta í eigin barm enda hafi þau veitt einstaklingum með litla greiðslugetu há lán til fasteignakaupa. Mynd/AFP

Fasteignalánafyrirtæki í Bandaríkjunum geta kennt sér sjálf um skellinn sem þau hafa orðið fyrir síðustu vikurnar. Þetta segir Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna. Hann segir fyrirtækin hafa sýnt óábyrgar lánveitingar og telur að vegna viðskipta þeirra muni það taka undirmálslánamarkaðinn allt upp undir tvö ár að jafna sig.

Til undirmálslánamarkaðarins teljast þeir viðskiptavinir fasteignalánafyrirtækja sem hafa litla greiðslugetu og slæma greiðslusögu og fá alla jafna ekki hefðbundin fasteignalán í Bandaríkjunum. Undirmálslánin bera iðulega hærri vexti en venjuleg fasteignalán og hafa lántakar átt í erfiðleikum að greiða af þeim.

Fjöldi fjármálafyrirtækja víða um heim, sem hafa fjárfest í lánasöfnum fasteignalánafyrirtækja vestanhafs, hefur lent í erfiðleikum vegna mikilla vanskila þessara einstaklinga í Bandaríkjunum. Paulson segir þetta fyrirtækjunum sjálfum að kenna og verði þau að horfa í eigin barm.

„Ég tel að það sé ekki hlutverk yfirvalda og eftirlitsaðila að verja þau gegn tapi," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×