Fótbolti

Knattspyrnumaður sætir rannsókn vegna líkamsárásar

Ionnis Amanatidis í leik með Eintracht Frankfurt.
Ionnis Amanatidis í leik með Eintracht Frankfurt. Nordic Photos / Bongarts

Gríski knattspyrnumaðurinn Ioannis Amanatidis sætir nú rannsókn þýsku lögreglunnar vegna meintrar líkamsárásar.

Amanatidis er leikmaður Eintracht Frankfurt og er sakaður um að hafa slegið til 33 ára konu frá Makedóníu eftir að hann reifst við föður hennar. Atvikið mun hafa átt sér stað í miðbæ Frankfurt í gær.

„Ég lamdi engan," sagði Amanatidis sem hitti forráðamenn Frankfurt að máli vegna málsins í dag. „Hvorki konuna né þann sem var með henni."

Framkvæmdarstjóri félagsins, Heribert Bruchhagen, hefur lýst yfir stuðningi við leikmanninn sem hann segir hafa fullvissað sig um að engin snerting hafi átt sér stað.

Hann er leikmaður gríska landsliðsins og skoraði sigurmark sinna manna gegn Tyrklandi í október síðastliðnum sem tryggði farseðil Grikkjanna í úrslitakeppni EM 2008.

Hann æfði með félagi sínu í dag og verður væntanlega með í leikmannahópi Frankfurt sem mætir Schalke á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×