Viðskiptaannáll ársins 2007 27. desember 2007 14:30 Árið 2007 var fjörugt í viðskiptalífinu. Blaðamenn Markaðarins fóru yfir árið og fundu það markverðasta sem gerðist í heimi viðskiptanna. Janúar Í byrjun ársins upplýsti Markaðurinn að hér á landi hefði velta hlutabréfa ellefufaldast frá árinu 2000. Ákveðin stemning var á markaði og hjá bönkunum þóttust menn góðir að hafa staðið af sér orrahríð í umræðu um krosseignarhald, fjármögnun og kerfisvanda vegna smæðar landsins og viðskiptahalla. Skuldatrygginaálag á fimm ára skuldabréf bankanna (CDS) stóð enda í byrjun árs í gildum sem þættu öfundsverð í dag. Álag á bréf Glitnis var nálægt 35 punktum, á Landsbankans rétt um 39 punktar og rétt tæpir 50 punktar á bréf Kaupþings. Þessi gildi smálækkuðu reyndar fram á mitt ár en tóku þá að hækka og eru nú fjórum til sex sinnum hærri en í upphafi árs. Bjartsýni fyrir hönd bankanna einskorðaðist ekki heldur við land og þjóð. Þannig gáfu tveir amerískir risabankar í byrjun janúarmánaðar út verðmat á bréf Kaupþings, Citigroup mat það svo að bréf bankans færu í 1.000 krónur á hlut og fjárfestingabankinn Morgan Stanley gaf út markgengið 956 krónur á hlut. Á þessum tíma var gengi bréfa Kaupþings rétt yfir 890 krónum á hlut, heldur yfir gengi bréfa bankans núna í desember. Málefni Kauphallarinnar voru líka áberandi á fyrstu dögum ársins, en í ársbyrjun var stigið fyrsta skrefið í aðlögun Kauphallarinnar að OMX-kauphallasamstæðunni þegar viðskipti hófust hér á First North hliðarmarkaði OMX. Formlega tók hins vegar OMX við rekstri Kauphallarinnar mánuði fyrr eftir að hafa keypt Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing, sem átti og rak Kauphöllina. Sömuleiðis var áframhald á umræðu um stöðu gjaldeyrismála og vangaveltur um hvort bankarnir kæmu til með að færa eigið fé sitt yfir í evrur. Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings sagði „frásagnir af andláti krónunnar dálítið ýktar" og taldi að áhrifin af yfirfærslu bankanna á eigin fé sínu hefðu verið ofmetin í umræðunni. Um leið sagði hann ljóst að tækju mörg fyrirtæki upp á því að gera upp í evrum sagði hann hlutabréfamarkað hér breytast og færast undan áhrifavaldi Seðlabankans. Væntanlega á þessu umræða jafnvel við í upphafi ársins 2008 og hún gerði fyrir ári síðan, enda unnið að því að félög fái fyrir mitt næsta ár skráð hlutabréf í evrum í Kauphöllinni hér. Krónan hins vegar tók kipp í styrkingarátt þegar Rabobank gaf 11. janúar út þá stærstu krónubréfaútgáfu frá upphafi, upp á 40 milljarða króna. Raunar fór það svo að í janúar var slegið met í útgáfu krónubréfa frá upphafi. Alls gáfu níu erlendir bankar í mánuðinum fyrir 61,5 milljarða króna. Í Grikklandi græddi Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, um 2,5 milljarða króna við sölu á 19 prósenta hlut í gríska fjarskiptafélaginu Forthnet. Slegið var á að á rúmum tveimur árum hafi virði hlutarins hækkað um 50 til 60 prósent. Í lok janúar urðu líka ákveðin tímamót hjá Glitni en þá var Copeinca, fjórði stærsti fiskimjöls- og lýsisframleiðandi Perú, skráð í Kauphöllina í Osló. Glitnir Securities, dótturfélag Glitnis í Noregi, sá um skráninguna en þetta var í fyrsta sinn sem bankinn skráði fyrirtæki í erlenda kauphöll. Í janúarlok kom sömuleiðis fram að Actavis undirbyggi skráningu hlutafjár í evrum og hefði átt fundi um það með bæði Kauphöll og Verðbréfaskráningu. Félagið hafði þá fært bókhald sitt í evrum frá 2003. Í mánuðinum upplýsti Actavis einnig um áhuga sinn á að taka yfir samheitalyfjahluta lyfjarisans Merck, en þær ráðagerðir voru svo blásnar af í maí.Febrúar Í febrúarbyrjun var upplýst um byr sem CCP hafði fengið í seglin hjá sér, en virði félagsins hafði sexfaldast á einu ári. Bandarískur fjárfestingasjóður, General Catalyst Partners, vill auka við fimmtán prósenta hlut sinn og bauð 1.000 krónur fyrir hlutinn. Bent var á að fáir hefðu hagnast meira á pappír á uppgangi CCP en Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, þá átti 38 prósenta hlut. Novator hafði tæpu ári fyrr fjárfest í CCP og greitt 180 krónur fyrir hlutinn samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Seljandi bréfanna var Brú Venture Capital, dótturfélag Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka. Upplýst var í byrjun febrúar að Glitnir hefði eignast yfir 68 prósent hlutafjár í finnska fjármálafyrirtækinu FIM Group og stefndi að yfirtöku á öllu félaginu. Heildarkaupverð var sagt nema þrjátíu milljörðum króna. „Þetta er mjög spennandi tækifæri og nýr markaður sem gefur okkur bæði stökkpall til frekari vaxtar og áhættudreifingar," sagði Bjarni Ármannsson, sem þá var forstjóri Glitnis. Fleiri sprikluðu erlendis. Þegar nálgaðist miðjan mánuðinn var upplýst að fjármálafyrirtækið Exista hefði tryggt sér rúmlega 15 prósenta hlut í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Group, stærsta tryggingafélagi Norðurlanda. Áætlað meðalverð var 20,5 evrur á hlut sem jafngilti því að kaupverðið næmi um 170 milljörðum króna. Á þessum tíma átti Sampo fimm milljarða evra í lausafé. „Við höldum að hægt sé að nota þetta reiðufé til góðra verka," sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Með kaupunum var félagið komið í lykilstöðu fyrir samrunahrinuna sem fyrirsjáanleg var á norrænum fjármálamörkuðum. Í byrjun ársins var greint frá því að FL Group hefði hagnast nokkuð á kaupum sínum á bréfum í AMR Corporation, móðurfélagi American Airlines. Undir lok febrúar var svo upplýst að FL Group væri orðið stærsti einstaki hluthafi félagsins eftir að hafa aukið hlut sinn úr tæpum sex prósentum, sem upplýst var um rétt eftir jólin 2006, í tæp níu prósent. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, sagðist vænta þess að með auknum eignarhlut myndu eitthvað aukast áhrif FL Group á stjórn félagsins. Á sama tíma barðist félagið við að hafa áhrif á annað flugfélag í annarri heimsálfu. Hannes sagðist telja algera tímaskekkju hjá stjórn Finnair og stærsta eigandanum, finnska ríkinu, að neita FL Group um stjórnarsæti í félaginu og ekki til marks um góða stjórnunarhætti. Í Finnair átti félagið þá yfir 22 prósenta hlut, en finnska ríkið 56 prósent. Enn var unnið að því að koma evrubréfum í Kauphöllina og var á seinni hluta febrúarmánaðar upplýst að Deutsche bank kæmi meðal annars til greina sem uppgjörsbanki í lok hvers viðskiptadags vegna viðskiptanna. Actavis hafði eitt uppi fyrirætlanir um evruskráningu, en vitað var að fleiri væru á leiðinni. Í þeim hópi var Marel, Straumur-Burðarás og Exista. Samráðsnefnd Seðlabankans, Verðbréfaskráningar, Kauphallar og annarra vann að málinu. Í mánuðinum var einnig upplýst um stofnun Landsbankans og Landsvirkjunar á félaginu HydroKraft Invest sem átti að fjárfesta á erlendri grundu í verkefnum sem tengdust endurnýjanlegri orkuvinnslu. Þar á bæ er sérstaklega horft til vatnsaflsins, ólíkt því sem gert er hjá fjárfestingafélaginu Geysi Green Energy, sem FL Group, Glitnir og verkfræðistofan VGK-Hönnun stofnaði í byrjun ársins. Þar er áherslan á jarðvarmavirkjanir. Heldur átti Geysir Green eftir að vera meira á milli tannanna á fólki þegar leið á árið. Mars Greiningarfyrirtækið Moody's breytti í febrúarlok aðferðafræði við mat á fjármálastofnunum og hækkaði lánshæfiseinkunn íslenskubankanna allra í fyrsta flokk. Efasemdir voru hins vegar á kreiki um að mat Moody´s á bönkunum yrði varanlegt. Enda hoppaði enginn bankanna hæð sína í loft upp yfir tíðindunum. Aðalástæðan fyrir breyttu mati var ofmat á vægi ríkisins og Seðlabankans sem bakhjarls fyrir bankana. Enda fór það svo að greiningarfyrirtækið tók ákvörðunina aftur og leiðrétti mat sitt á fjölda fjármálafyrirtækja. „Þó svo að bankarnir séu góðir þá var þessi AAA-einkunn alveg út úr korti fyrir þá," sagði Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild HR, í viðtali við Markaðinn í lok mars. Í mars lækkaði líka alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs, en lét lánshæfi bankanna vera óbreytt. Upplýst var í marsbyrjun að Straumur-Burðarás yrði að öllum líkindum fyrsti íslenski bankinn til að skrá hlutafé sitt í erlendri mynt, en tillaga þess efnis var svo samþykkt á aðalfundi bankans áttunda mars. Þá var í byrjun mánaðarins ljóst að lögð yrði fyrir aðalfund Byrs sparisjóðs (sem til varð fyrir áramótin með samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra) tillaga um heimild til stjórnar til að auka stofnfé sjóðsins í þrjátíu milljarða króna. Aukningin næmi um 130-földun þáverandi stofnfjár. Byr var ekki einn í þessum vangaveltum því í mars höfðu auk hans SPRON, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Kópavogs, fengið heimild til að sækja sér aukið eigið fé til vaxtar á næstu misserum með útgáfu nýs stofnfjár. Miðað við fulla nýtingu heimilda myndi stofnfé sparisjóðanna fara úr 25 milljörðum í 70. Í árslok 2005 nam bókfært eigið fé alls sparisjóðakerfisins 38,8 milljörðum króna. Í útlöndum birtust feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson á lista Forbes yfir 1.000 auðugustu menn heims. Sá yngri var í 249. sæti og sá eldri í sæti 799. Feðgarnir eru einu Íslendingarnir á listanum, en þar hafði Björgólfur Thor þó sést áður. Hann hækkaði um 101 sæti á listanum milli ára. Þá útnefndi viðskiptatímaritið CNBC European Business upplýsingatæknifyrirtækið Industria sem eitt af 50 framsæknustu fyrirtækjum Evrópu. Tuttugasta mars veittu norsk fjármálayfirvöld Kaupþingi leyfi til að eignast allt að 19,99 prósent í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand. Í Dagens Næringsliv kom fram að Kaupþing óskaði eftir heimild að fara með allt að fjórðungshlut. Stjórnendur Kaupþings biðu ekki boðanna og fóru með hlut sinn úr rúmum níu prósentum í 10,43 prósent. Hlutur Kaupþings var metinn á 27 milljarða króna. Í mars leit einnig dagsins ljós nýjasta aflið á íslenskum fjármálamarkaði, Saga Capital á Akureyri, en í lok mánaðarins áttu forsvarsmenn bankans von á starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti „á næstu dögum". Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, sagði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkað innan fjögurra ára. Apríl Í byrjun apríl fóru félögin 25 sem skráð voru í íslensku kauphöllina inn á samnorrænan lista OMX kauphallasamstæðunnar og eftirleiðis kynnt með sænskum, finnskum og dönskum félögum. Í Glitni var næðingssamt í byrjun apríl sökum deilna í eigendahópi bankans. Óvissa var um hver niðurstaða yrði í deilum milli stærstu hluthafa. Í kekki kastaðist þegar fulltrúar FL Group í stjórninni fóru fram á að taka við stjórnarformennsku í bankanum. Það fór enda svo á fyrstu dögum mánaðarins að Milestone undir forystu Karls Wernerssonar og Einars Sveinssonar, formanns stjórnar bankans, og aðilar tengdir honum seldu mestallan hlut sinn í Glitni. Alls skiptu hlutir fyrir 110 milljarða króna um hendur. Undir lok mánaðarins tóku forsvarsmenn FL Group, samkvæmt heimildum Markaðarins heldur fálega í þá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins að takmarka atkvæðisrétt stærstu eigenda í Glitni. Fyrir hluthafafundi í Glitni í apríllok tilkynnti FME um að sameiginlegur atkvæðisréttur FL Group, sem réði um 32 prósenta hlut í Glitni, og Elliðahamars, Jötuns Holding og Sunds og aðila þeim tengdra í Glitni hefði verið takmarkaður við 32,99 prósenta eignarhlut. Eftirlitið kannaði í kjölfar viðskiptanna í byrjun mánaðarins hvort samstarf hefði myndast um meðferð virks eignarhlutar í Glitni á milli FL Group og þessara aðila og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ekki reyndi á takmörkunina á hluthafafundi bankans, enda ný stjórn sjálfkjörin. Mánudagurinn 30. apríl markaði hins vegar þáttaskil í sögu íslensks viðskiptalífs því þennan sama dag og Glitnir greindi frá sjö milljarða króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi lét Bjarni Ármannsson af störfum sem bankastjóri í kjölfar þess að ný stjórn var kjörinn á hluthafafundi bankans. Við tók Lárus Welding, rúmlega þrítugur framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Afsögn Bjarna kom hins vegar ekki á óvart, enda hafði verið þrálátur orðrómur um brotthvarf hans úr Glitni í mánuðinum eftir breytingar á eignarhaldi bankans. Vel þótti ganga í undirbúningi evruskráningar hlutabréfa og boðaði Þórður Friðjónsson, kauphallarforstjóri að boðið yrði upp á slíka skráningu þegar líða tæki á árið. Hann sagði þó ákveðnar flækjur til staðar. „Þetta er náttúrulega ekki að fullu í okkar höndum, heldur snýr þetta að ákveðnum reglugerðabreytingum. Við munum hins vegar bjóða þessa þjónustu, spurningin er bara hvaða leið verður farin í tæknilegri útfærslu," sagði hann. Samráðsnefnd um samskipti verðbréfamiðsöðva, kauphalla og Seðlabanka fór enn yfir málin. Finnska tryggingaeftirlitið gerði samkvæmt bréfi til Existu á fyrstu dögum aprílmánaðar ekki athugasemd við að félagið færi með 15,58 prósent heildarhlutafjár í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Oyj. Ellefta apríl var gengið frá kaupum Existu á 9,5 prósenta hlut í Sampo sem tilkynnt var um í byrjun febrúar. Kaupvirði hlutarins var um 170 milljarðar króna og Exista eftir kaupin er orðið stærsti hluthafinn í Sampo Group, stærsta fjármálafyrirtækis Finnlands og stærsta tryggingafélags Norðurlanda. Þær létu ekki mikið yfir sér fregnir af bandarískum fasteignamarkaði á fyrri hluta ársins en áttu þó heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Markaðurinn fjallaði um málið í opnuúttekt ellefta apríl en þar kom fram að helstu fjármálamarkaðir í heimi hefðu tekið dýfu í kjölfar mikillar aukningar vanskila á bandarískum fasteignamarkaði um miðjan mars. „Um nokkuð sérstakan markað var að ræða, svokallaðan „subprime" markað, sem útlagst getur sem undirmálsmarkaður, enda stærstur hluti lánþega fasteignaeigendur sem eru í lægri tekjuflokkum og hafa verra lánshæfi. Þá hafa einhverjir lent á svörtum lista lánastofnana. Nokkrar lánastofnanir sem hafa einbeitt sér að þessum markaði lentu í erfiðleikum í kjölfarið og hefur ein þeirra farið fram á greiðslustöðvun. Gert er ráð fyrir eignaupptöku í skuldir vegna þessa," sagði í úttektinni. Kaupþing dúkkaði upp í 795. sæti á nýjasta lista alþjóðlega viðskiptatímaritsins Forbes yfir stærstu fyrirtæki veraldar. Bankinn skákaði meðal annars Starbucks, Adidas og Carlsberg. Þá var Glitnir tilnefndur Glitnir banki hefur verið tilnefndur til Sjálfbærnisverðlauna Financial Times í flokknum Sjálfbæri samningur ársins. Financial Times og IFC, einkageiraarmur Alþjóðabankastofnananna, stofnuðu til verðlaunanna til að veita viðurkenningu bönkum sem hafa sýnt frumkvæði og nýbreytni við að fella félags- og umhverfismarkmið saman við starfsemi sína. Tilnefning Glitnis var fyrir þátttöku bankans í jarðhitaverkefni í borginni Xian Yang í Kína. Fyrstu vísbendingar um væringar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum litu dagsins ljós undir lok apríl en þá höfðu hlutabréf í Vinnslustöðinni skipt um hendur á genginu 6,0 til 7,0 krónur á hlut, langt yfir væntanlegu yfirtökutilboði frá meirihluthafahópi félagsins. Í apríllok var Actavis meðal fjögurra félaga sem skiluðu inn bindandi tilboðum í samheitalyfjahluta Merck. Margt þótti benda til þess að lokaslagurinn um félagið yrði milli Actavis og Teva. Í byrjun maí varð hins vegar ljóst að Actavis drægi sig úr slagnum.Maí Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, hagnaðist um 55 til 60 milljarða króna þegar seldur var 85 prósenta hlutur félagsins í búlgarska símafélaginu BTC. Bandaríska fjármálafyrirtækið AIG Global Investment Group keypti á 160 milljarða króna. Hagnaður annarra íslenskra fjárfesta í viðskiptunum var nálægt sex milljörðum og ávöxtun nærri fimmföld. Níunda maí opinberaði hópur Eyjamanna, með meirihluta hlutafjár í Vinnslustöðinni, yfirtökutilboð í félagið þar sem boðnar voru 4,6 krónur fyrir hvern hlut. Tilboðið var ekki hækkað þótt síðasta viðskiptagengi Vinnslustöðvarinnar hefði verið 8,3 krónur á hlut, 70 prósent yfir tilboðsverðinu. Hluthafar í Vinnslustöðinni voru greinilega ekki á eitt sáttir um verðmæti „síðasta móhíkanans", eins og síðasta útgerðarfélagið á Aðallista Kauphallar hefur verið kallað. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sem fór fyrir ríflega þrjátíu prósentum hlutafjár í Vinnslustöðinni, sagði yfirtökutilboðið of lágt. Stemning var enn góð á markaði 15. maí þegar Úrvalsvísitalan rauf 8.000 stiga múrinn í fyrsta sinn. Hækkun frá áramótum nam fjórðungi. Tveimur árum fyrr stóð Úrvalsvísitalan í 4.050 stigum. Fjárfestar voru taldir taka vel niðurstöðum þingkosninga, því auk hækkana á hlutabréfamarkaði styrktist gengi krónunnar þarna um miðjan maí. Í annarri viku maímaðar gaf Icelandair Group líka út viljayfirlýsingu um kaup á Travel Service, stærsta einkarekna flugfélagi Tékklands. Gengju kaupin eftir myndi velta Icelandair Group aukast um tæpan þriðjung. Travel Service er leiguflugfélag og rekur auk þess lággjaldaflugfélagið Smart Wings. Það er langstærst á sínu sviði í leigu- og áætlunarflugi í Tékklandi og teygir einnig anga sína inn í Ungverjaland. Víðar voru yfirtökutilburðir í gangi. Björgólfur Thor Björgólfsson vildi eignast allt hlutafé í Actavis Group í gegnum fjárfestingafélag sitt Novator og ætlaði að bjóða hluthöfum 85,23 krónur á hlut. Þessi dans átti eftir að teygja sig út í sumarið með nýju og hækkuðu yfirtökutilboði í júní. Þá tók Straumur-Burðarás stefnuna á 22 milljarða yfirtöku 22. maí þegar upplýst var um kaup á 62 prósenta hlut í eQ Corporation, finnskum banka sérhæfðum í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Í framhaldinu átti að gera yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti bankans sem eftir stæðu. Á sama tíma var tilkynnt um að Alfesca hefði náð samningum um yfirtöku á franska matvælafyrirtækinu Le Traiteur Grec, sem framleiðir viðbit úr grænmeti fyrir stórmarkaði í Frakklandi. Kaupverð nam 19,7 milljónum evra, jafnvirði 1.669 milljóna íslenskra króna. Á lokadögum maímánaðar tilkynnti Ole Vagner, stofnandi danska fasteignafélagsins Keops, að hann samþykkti tilboð Pálma Haraldssonar í nær allt hlutafé hans í félaginu upp á 24 danskar krónur á hlut. Þá var upplýst um samning Eimskips um kaup á fjórðungi hlutafjár í kanadíska félaginu Versacold Income Fund. Með þessu ætlaði Eimskip að verða langstærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki heims. Markaðurinn greindi frá því 23. maí að peningamarkaðssjóðir tútnuðu út. Fjárfestar voru sagði fá um tólf prósenta raunávöxtun af áhættulitlum sjóðum. Stærð verðbréfasjóðanna var ekki sögð undir þrjú hundruð milljörðum króna. Í lok maí kom svo fram að Century Aluminum Company, móðurfélag Norðuráls, hefði farið fram á skráningu á First North Iceland-hlutabréfalistann. Félagið er skráð á Nasdaqmarkaðinn bandaríska og stefndi í að verða fyrsta skráða fyrirtækið í Bandaríkjunum til að fá skráningu hér. Félagið var skráð á markaðinn um miðjan júní. Fleiri komu til landsins úr vesturheimi í lok mánaðarins. William Fall tók við forstjórastöðu Straums-Burðaráss og Friðrik Jóhannsson yfirgaf forstjórastólinn eftir tæplega ársstarf hjá bankanum. William er fyrrum forstjóri alþjóðasviðs Bank of America, næststærsta banka í heimi. Hann lét af störfum þar af persónulegum ári fyrr og var að hugsa sér til hreyfings á ný þegar sameiginlegur vinur kynnti hann fyrir Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Straums-Burðaráss. Júní Í byrjun júní seldi FL Group alla hluti sína, 10,76 prósent, í danska raftækjaframleiðandanum Bang & Olufsen fyrir 10,2 milljarða króna. Tap FL Group á fjárfestingunni nam um 100 milljónum króna. Þá var slagur hafinn um Vinnslustöðina. Bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir lögðu fram gagntilboð í allt hlutafé útgerðarfélagsins sem var 85 prósentum hærra en yfirtökutilboð Eyjamanna ehf. Rífandi gangur var enn í Kauphöllinni. Úrvalsvísitalan hafði tvöfaldast á tveimur árum og gengi sumra hlutabréfa tífaldast á öldinni og menn bjartsýnir um framþróun markaðarins. Aukin velta og þátttaka útlendinga, fjölgun skráðra félaga og væntingar um frekari fjárfestingar fyrirtækja voru sagðar geta stutt við vöxtinn. Eimskip samdi um kaup á öllu hlutafé Innovate fyrir um fjóra milljarða króna, en hafði keypt helminginn rúmu ári fyrr. Greitt var fyrir kaupin með útgáfu nýs hlutafjár og urðu fyrri eigendur Innovate meðal stærstu hluthafa Eimskips við kaupin. Í efnahagsmálum voru blikur á lofti, en á fyrri hluta ársins voru vangaveltur um hvort ekki færi að ljúka hér skeiði hárra stýrivaxta. Útlitið efnahagsmálum var sagt svartara en áður hafði verið talið. Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gaf til kynna að hagvöxtur yrði minni og verðbólga meiri en áður var spáð. Undir lok júní hækkaði Novator yfirtökutilboð sitt í Actavis úr 0,98 evrum á hlut í 1,075 evrur á hlut. Stjórn Actavis studdi nýtt yfirtökutilboð, en hafði talað gegn hinu fyrra. Aðstandendur Novators greindu frá því að hluthöfum sem hefðu áhuga á að eiga áfram hlut sinn í Actavis, þrátt fyrir afskráningu félagsins, stæði það ekki til boða. Talsmaður Björgólf sagði forsendu fjármögnunar og lána frá hendi lánveitenda vera að um full yfirráð yfir félaginu yrði að ræða. Í júnílok voru í fyrsta skipti fimm fyrirtæki í Kauphöll Íslands metin á þrjú hundruð milljarða króna eða meira. Fyrirtækin voru fjármálafyrirtækin Kaupþing, Glitnir, Landsbankinn og Exista og samheitalyfjafyrirtækið Actavis sem datt inn í hópinn eftir að Novator hækkaði yfirtökutilboð sitt í félagið. Átta stærstu félögin í Kauphöllinni voru alls metin á tæpa þrjú þúsund milljarða króna. Innan Glitnis var í Noregi hafin aðgerð „Albatros" en hún sneri að mótun framtíðarskipulags bankans þar í landi. Bankinn ætlaði að óska eftir heimild til að samræma starfsemina í Noregi, þar á meðal að fella Bolig- og Næringsbanken (BNbank) og Glitnir Bank í eina sterka heild. Höfuðstöðvar Glitnis Bank yrðu í Þrándheimi en fyrirtækjabankastarfsemin í Álasundi. Júlí Í júlíbyrjun má segja að sýn landans á framþróun efnhagsmála á árinu hafi verið hvað skökkust, svona eftir á að hyggja. Þannig var niðurskurður í aflaheimildum og fyrirséðar breytingar á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs taldar stuðla að hjöðnun í hagkerfinu og gætu boðað hraðari lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Ekki var þó búist við að bankinn hreyfði við stýrivöxtum á vaxtaákvörðunardeginum 5. júlí, enda varð sú ekki raunin. Sérfræðingar voru hins vegar afar bjartsýnir fyrir hönd markaðarins í júlí og spáðu greiningardeildir bankanna hækkun úrvalsvísitölunar allt frá 37 til 48 prósenta á árinu.Vísitalan hafði þá hækkað ört fyrstu vikuna í mánuðinum, var komin yfir 8.500 stig. Greiningardeild Landsbankans benti þó á að gengi hlutabréfa hefði hækkað mikið það sem af var ári og taldi líkur á að hækkanir yrðu minni á seinni hluta ársins. Úrvalsvísitalan var engu að síður í hillingum framtíðarsýnarinnar í 9.000 til 9.500 stigum þegar greiningardeildir bankanna þriggja höfðu allar sett fram spár sínar skömmu fyrir miðjan mánuðinn. Samruni Kauphallar Íslands og OMX samstæðunnar var nýfullkomnaður þegar næsta ferli fór í gang. Í júlíbyrjun var gert ráð fyrir að um þessi áramót yrði sameiningu kauphallarsamstæðanna NASDAQ og OMX lokið. Nýja kauphallarsamstæðan var sögð munu verða önnur tveggja stærstu kauphalla í veröldinni ásamt sameinaðri kauphöll New York Stock Exchange og Euronext. Ellefta júlí varð Eik Bank Group þriðja færeyska fyrirtækið til að skrá hlutabréf sín í Kauphöll Íslands. Yfir 600 Íslendingar voru þá meðal hluthafa og bankinn hafði verið í nánu samstarfi við íslenska fjárfesta. Marner Jacobsen, forstjóri Eik Banka, sagði aðdraganda skráningarinnar mega rekja aftur til tíunda áratugar síðustu aldar, þegar íslenska kauphöllin sýndi Færeyingum meiri áhuga en sú danska. Þá var Kauphöll Íslands talin hafa aðra kosti, var ódýrari en sú danska og hentugri fyrir smærri fyrirtæki. „Þannig hefur það verið eðlilegt fyrir færeysk félög að velja Kauphöll Íslands sem meginskráningarstað. Það á við um Atlantic Petroleum, Føroya Banka og okkur," sagði Marner í viðtali við Markaðinn. Upp úr miðjum mánuði var líka greint frá fyrirætlunum um að skrá SPRON í Kauphöllina. Verðmæti SPRON var 60 milljarðar króna samkvæmt mati Capacent. 85 prósent áttu að verða í eigu stofnfjáreigenda, en 15 milljarðar í eigu sjálfseignarstofnunar. Fjármálaeftirlitið gerði um miðjan júlí alvarlegar athugasemdir við starfsemi Nordvest. Starfsmenn félagsins voru jafnvel sagðir hafa framkvæmt eigin viðskipti. „Við erum búnir að bæta úr þeim göllum sem FME gerði athugasemdir við," sagði Skúli Sveinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Icelandair var með fyrstu félögum til að festa sér nýjar og byltingarkenndar 787 þotur frá Boeing sem nefndar hafa verið „Dreamliner". Raunar var félagið fyrsta af evrópskum flugfélögum til að fara þessa leið og sagði Jón Karl Ólafsson forstjóri það njóta þess í kjörum, auk þess sem tækifæri sköpuðust í mögulegri endursölu á vélunum. Margra ára biðlisti er eftir vélunum en Icelandair fær sínar fjórar afhentar árin 2010 og 2012. Upp úr miðjum mánuði hafði Novator tryggt sér yfir 90 prósent hlutafjár í Actavis og full yfirtaka og afkráning úr Kauphöll stóð því fyrir dyrum.Ágúst Um mánaðamót júlí og ágúst tók að bera á lækkunum í kauphöll, nokkuð sem fjárfestar hér höfðu ekki átt að venjast í alllanga hríð. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hafði lækkað um tæplega 4,5 prósent vikuna fyrir mánaðamótin. Lækkunin var sögð í samræmi við lækkanir erlendis og til marks um hversu alþjóðlegur hlutabréfamarkaður hér væri að verða. „Mörg félögin hér á landi eru með fjárfestingar og starfsemi erlendis. Þá eru margir innlendir fjárfestar sem eiga eignir í útlöndum, auk þess sem stórir erlendir fjárfestar eru orðnir umsvifamiklir á íslenskum fjármálamarkaði. Allt þetta er til marks um hversu alþjóðlegt viðskiptalífið er orðið," sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis. Þá var að ljúka yfirtöku Eimskips á kæli- og frystigeymslufyrirtækinu Versacold Income Fund í Kanada og var þar með orðið stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heimi. Samþykki náðist um kaup á 93 prósenta hlut í félaginu í kjölfar yfirtökutilboðsins sem sett var fram í maílok. Að auki voru fengin öll leyfi fyrir yfirtökunni hjá kanadískum yfirvöldum. Atorka „sannaði sig" á fyrsta degi ágústmánaðar þegar félagið seldi Jarðboranir hf. til Geysis Green Energy fyrir 14,3 milljarða króna. Hagnaður Atorku af sölunni nam ellefu milljörðum króna. Að auki keypti Geysir Green sextán prósenta hlut í Enex. Samhliða sölunni keypti Atorka 32 prósenta hlut í Geysi fyrir rúma sjö milljarða og var með því orðinn kjölfestufjárfestir í félaginu. Þegar lokað var fyrir með viðskipti á stofnfjárbréfum í SPRON þann 7. ágúst var stofnfé sparisjóðsins metið á rúma 103 milljarða króna, hátt yfir 59,4 milljarða króna verðmati Capacent ráðgjafar vegna skráningar félagsins. Núna rétt fyrir jól, eftir skráningu og að undangengnum lækkunum vegna markaðsóróa, stóð markaðsviði SPRON í kauphöll nærri 44 milljörðum króna. En hækkanir ágústmánaðar benti Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, á að verðmat Capacent miðaðist við 1. apríl. Formaður Samtaka kvikmyndaframleiðenda á Indlandi, Amit Khanna, sótti landið heim um miðjan ágúst. Hann taldi Ísland að mörgu leyti ákjósanlegan tökustað fyrir indverskar kvikmyndir. Khanna er stjórnarformaður eins stærsta afþreyingarfyrirtækis á Indlandi, Reliance Entertainment. Bollywood var sagt nær en margan kynni að gruna. Um miðjan ágúst var upplýst um 270 milljarða króna yfirtöku Kaupþings á hollenska bankanum NIBC. Yfirtakan er stærsta erlenda fjárfesting íslensks fyrirtækis til þessa. Forsvarsmenn Kaupþings sögðust líta á kaupin sem stökkpall inn í Benelux-löndin þar sem bankinn hafi ekki haft starfsemi, auk þess sem þau bjóði upp á ýmis tækifæri í Þýskalandi. „Þetta er frábær fjárfesting, ekki bara fyrir Kaupþing heldur einnig fyrir NIBC," sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Kaupverðið var greitt með útgáfu hlutafjár og í reiðufé. Skuldbindingar NIBC vegna amerískra undirmálslána fylgdu ekki með í kaupunum, heldur voru færðar í sérfélag. Michael Enthoven, forstjóri NIBC, sagði húsnæðiskrísuna í Bandaríkjunum hafa reynst lán í óláni fyrir bankann. Til hafi staðið að skrá bankann á markaði í Hollandi undir eigin nafni. „Yfirtaka Kaupþings er mun betri kostur," sagði Enthoven. Út kvisaðist á seinni hluta mánaðarins að Straumur-Burðarás væri einna lengst kominn í undirbúningi evruskráningar hlutabréfa. Áætlanir Kauphallar og Verðbréfaskráningar miðuðu við að félög gætu skráð bréf sín í evrum fyrir lok september. Fara átti bráðabirgðaleið þar sem Landsbanki Íslands tæki að sér hlutverk uppgjörsbanka. Seðlabanki Finnlands átti svo að taka að sér uppgjörið til framtíðar snemma næsta sumar. Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri 6.600 fermetra átöppunarverksmiðju félagsins í Þorlákshöfn undir lok ágústmánaðar. Stefnt er að því að verksmiðjan verði fullbúin næsta sumar og geti náð í áföngum allt að 250 milljón lítra afkastagetu á ári en reiknað er með að um 35 til 40 manns muni starfa við framleiðsluna.September Ákveðin viðhorfsbreyting var talin hafa átt sér stað í garð íslenskra athafnamanna í Danmörku undir sumarlok. Skarphéðinn Berg Steinarssonar, forstjóri Stoða, taldi ákvörðun þrjú hundruð danskra fjárfesta að taka bréf í Stoðum í skiptum fyrir hluti sína í Keops vera til marks um þessa viðhorfsbreytingu. „Fyrir skömmu hefði þótt óhugsandi að danskir fjárfestar ættu bréf í íslensku félagi sem enn er óskráð," sagði hann. Karsten Poulsen, framkvæmdastjóri Keops, segist oft á tíðum hafa orðið forviða á neikvæðri umfjöllun um íslenska fjárfesta í Danmörku, enda hafi hann ekkert nema gott um Íslendingana að segja. „Ég held að ástæðan sé einfaldlega sú að Íslendingarnir eru snöggir að taka ákvarðanir, og fljótir að láta kné fylgja kviði. Nokkuð sem kannski tíðkast ekki hér í Danmörku." Ísland og Lettland voru í skýrslu matsfyrirtækisins Standard and Poor´s sögð vera þau lönd Evrópu sem verða verst úti vegna herts aðgengis að lánsfé á alþjóðamörkuðum, í kjölfar bandarísku húsnæðislánakrísunnar. Í skýrslunni var bent á að ofþensla hafi verið í íslenska hagkerfinu undanfarin misseri; húsnæðismarkaðurinn hafi verið í hæstu hæðum og eftirspurn eftir lánsfé gríðarleg. Þá hafi íslensku bankarnir stundað skuldsettar yfirtökur í miklum mæli. Leiddar voru að því líkur að því að Seðlabankinn kynni að þurfa að hækka stýrivexti enn frekar. Þeir stóðu á þessum tíma í 13,3 prósentum. Í septemberbyrjun tók stjórn Straums-Burðaráss formlega að skrá hlutafé sitt í evrum í stað íslenskra króna frá og með 20. september næstkomandi. William Fall forstjóri sagði þetta eðlilega þróun þar sem bankinn hafi tekið að gera upp í evrum undir lok síðasta árs auk þess sem áttatíu prósent af tekjum bankans komi erlendis frá. Rúmri viku síðar upplýsti Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings um að lagt yrði fyrir stjórnarfund að færa bókhald og hlutabréf bankans yfir í evrur. Kauphallarevrusnjóboltinn var heldur tekinn að bæta utan á sig og auka hraðann. Önnur félög á leið í evruna eru til dæmis Alfesca, Marel og Exista. Evruskráning hlutabréfa frestaðist hins vegar eftir að fram komu athugasemdir frá Seðlabanka Íslands viku áður en skráning bréfa Straums átti að eiga sér stað. Bankinn túlkar lög þannig að öðrum bönkum en Seðlabanka sé óheimilt að annast lokauppgjör verðbréfaviðskipta. Vinna að nýrri lausn var hafin og óvíst um málalyktir. „Við hefðum gjarnan viljað sjá þessar athugasemdir koma fyrr fram," sagði Einar Sigurjónsson, forstjóri Verðbréfaskráninar Íslands. Forsvarsmenn Símans voru snemma í september sagðir kunna að fara fram á undanþágu frá samkomulagi sínu við einkavæðingarnefnd þess efnis að skrá Símann á hlutabréfamarkað fyrir árslok, yrðu aðstæður á markaði óheppilegar. „Það getur ekki verið tilgangur ríkisins að selja bréf á lágu verði. Samkomulagið er gert með það í huga að markaðsaðstæður verði eðlilegar og nú er það okkar að fylgjast með því," sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans. Greiningardeildri bankanna sáu ekki ástæðu til þess á fyrri hluta mánaðarins til að endurskoða spár um afkomu á hlutabréfamarkaði þrátt fyrir miklar sveiflur undangengnar sex vikur og óróa á alþjóðamörkuðum. Bankarnir höfðu spáðu því að úrvalsvísitalan myndi enda árið í ár á bilinu 8.500 til 9.300 stigum. Nafni Greiðslumiðlunar - VISA Íslands var snemma í september breytt í Valitor ásamt því sem ráðist var í áherslu- og skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu. Ástæða breytinganna var sögð vera vaxandi starfsemi utan landsteinanna og aukin breidd í þjónustu fyrirtækisins. Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri Valitor, sagði verið að styrkja stoðir fyrirtækisins í flóknara samkeppnisumhverfi. Nick Leeson komst á spjöld sögunnar árið 1995 þegar hann gerði einn elsta og virðulegasta banka Bretlands gjaldþrota með áhættusömum gjaldeyrisviðskiptum. Þessi alræmdasti verðbréfamiðlari heims sótti landið heim, flutti erindi og ræddi við Markaðinn um spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði og lífsins gang. Um miðjan mánuðinn var Travel Service í Tékklandi í höfn hjá Icelandair Group. Skrifað hafði verið undir samning um kaupin, en viljayfirlýsing um þau hafði verði undirrituð í maí. Um miðjan september sagði Hannes Smárason, forstjóri FL Group, tækifæri Tryggingamiðstöðvarinnar felast í ytri vexti, en verið var að kaupa félagið að fullu. Heldur var tekið að næða um FL Group í óróa á fjármálamörkuðum. Þarna stóð gengi félagsins í rúmum 24 krónum á hlut og hafði lækkað um tæplega tuttugu og eitt prósent frá 19. júlí. Hannes segist lítið geta tjáð sig um hvort verðlagning félagsins sé sanngjörn, en sagði þó mögulegt að draga ákveðnar ályktanir. „Ég keypti í FL Group fyrir sex milljarða á mánudaginn. Ég hefði nú varla gert það ef ég teldi félagið of dýrt." Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og fjárfestir, sagðist í viðtali við Markaðinn 19. september sjá Geysi Green Energy fyrir sér sem sem langtímafjárfestingu. Hann sagði Goldman Sachs bankann bestu viðbót við hluthafahópinn sem völ hafi verið á, en nokkur styr hafði staðið um aðkomu hans vegna óbeins eignarhalds sem þá varð til í orkufyrirtækjum hér .Ólafur Jóhann taldi athugasemdir við að útlendingar eignuðust hlut í íslenskum auðlindum jaðra við hræsni, enda markmið félaga á borð við Geysi Green að komast yfir sem mest af auðlindum utan landsteinanna. Október Erlendir starfsmenn íslenskra fyrirtækja sem eru með starfsemi erlendis eru næstum jafnmargir öllu starfandi fólki hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum þá eru tæplega 163 þúsund erlendir starfsmenn hið minnsta á launaskrá hjá íslenskum fyrirtækjum á erlendri grund. ÍTil samanburðar voru rétt tæplega 170 þúsund starfandi karlar og konur hér á landi í fyrra. Í október fór á flug umræða um eðli og tilurð REI, fjárfestingararms orkuveitunnar í orkuiðnaði í samstarfi við einkaaðila. Umræðan fékk vind í stórseglin eftir að upplýst var um fyrirhugaða sameiningu REI og Geysis Green Energy. Meðan hnýtt var í REI og Orkuveituna horfði enginn til útrásar Landsvirkjunar og Landsbankans í gegnum HydroKraft Invest. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, benti enda á að sú útrás væri í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí. Í henni er talað um að tímabært sé „að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja". Aukinheldur taldi Friðrik umræðu sem í gangi var um útrás Orkuveitunnar með REI ekki eiga við um HydroKraft, sem væri að helmingi í eigu dótturfélags Landsvirkjunar. Hann benti á að Landsvirkjun væri líka eingöngu í samkeppnis-, en ekki einkaleyfisbundinni, starfsemi. Í októberbyrjun tók Sigurður Viðarsson við sem forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar af Óskari Magnússyni. Óskar var þarna í fjórða sinn að hverfa frá stjórn fyrirtækis eftir að það hafði verði keypt af félagi tengdu Baugi. „Ég er auðvitað bara stoltur af því að þau fyrirtæki sem ég hef stjórnað séu eftirsóknarverð. Þau hafa öll verið seld á mjög háu verði, margföldu því sem var þegar ég tók við þeim," sagði hann. Hlutabréf iðnfyrirtækisins Promens, dótturfélags Atorku, verða skráð í evrum, upplýsti Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri fyrirtækisins snemma í október. Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöllina hér á næsta ári. „Langstærstur hluti af okkar rekstri er í evrum og á evrusvæði. Við stefnum því að skráningu í evrum og vonandi verða ekki á því vandkvæði," sagði hún og taldi evruskráninguna lykilatriði. „Það ræður náttúrlega enginn yfir gengi krónunnar og tenging við hana myndi verða til vandkvæða." Upplýst var í Markaðnum 17. október að Carbon Recycling International, félag í eigu bandarískra og íslenskra aðila, hefði skrifað undir viljayfirlýsingu við íslenskt raforkufyrirtæki um byggingu þriggja til fimm megavatta tilraunaverksmiðju hér á landi þar sem vinna á raforku úr menguðum útblæstri. Gangi allt eftir er reiknað með að tæknin geti til dæmis minnkað losun koltvísýringsútblásturs álvera um rúm níutíu prósent. Um miðjan október keypti Frosti Bergsson fjárfestir starfsemi Opinna kerfa hér á landi af Hands Holding. Um leið átti sér stað ákveðin uppstokkun milli Teymis og Hands Holding. Teymi keypti allt hlutafé í Landsteinum Streng og Hugi Ax, um leið og félagið seldi ríflega 80 prósent af eignarhlut sínum í Hands Holding. Sama dag keypti Nýherji TM Software. Sjö mínútur liðu á milli tilkynninga þessara risa upplýsingatæknimarkaðarins hér. Fyrst kom Nýherjjatilkynningin og svo frá Teymi í kjölfarið. Kaupþing kynnti efnhagshorfuspá seint í október. Í hliðarspá kom fram að á næstunni mætti reikna með að helmingur félaga að markaðsvirði í Kauphöll Íslands verði komin í evrur jafnskjótt og færi gefst. Sömuleiðis kom fram að miðað við þau félög á Aðallista Kauphallarinnar sem greiningardeild Kaupþings telur líkleg til að færa hlutafé sitt í erlenda mynt verða um 94 prósent markaðsvirðis í Kauphöllinni þannig skráð innan tveggja ára. Í þeim hópi eru allir bankarnir. Í úttekt Markaðarins í októberlok kom fram að viðskiptabankarnir þrír, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn, hafi eytt sem svarar 544 milljörðum króna í helstu fyrirtækjakaup og samruna í útlöndum. Kaupþing á 78 prósent upphæðarinnar. 30. október lauk á nokkrum klukkustundum hlutafjárútboði Össurar sem taka átti nokkra daga. „Útboðið gekk mjög vel og stóru tíðindin voru kannski þau að ATP, stærsti og virtasti lífeyrissjóður Dana, keypti í einu lagi 42 prósent af útboðinu," sagði Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins, glaðbeittur að því loknu. „ATP er aðallífeyrissjóður Dana og eini opinberi lífeyrissjóðurinn þar í landi," sagði hann og benti á að aðkoma sjóðsins væri þvert á umtal sem verið hafi um íslensk fyrirtæki, útrás þeirra og íslenskt efnahagslíf í Danmörku undanfarið.Nóvember Seðlabanki Íslans hækkaði stýrivexti um 45 punkta, í 13,75 prósent fyrsta dag nóvembermánaðar. Vextir yrðu næst endurskoðaðir á aukavaxtaákvörðunardegi 20. desember. „Það væri ekki trúverðugt fyrir bankann að segja einu sinni enn að ef þetta héldi áfram að versna að þá myndum við bregðast við," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri um hækkun stýrivaxtanna í viðtali við Markaðinn. Hann sagði ljóst að langan tíma tæki fyrir stýrivexti að bíta en hugsanlega væri rót gagnrýni á peningamálastefnu bankans, sem gerðist á þessum tíma æ háværari, að vextirnir væru farnir að hafa áhrif. „Við höfum aldrei sagt að þetta virki eins og skot. Það gerir það hvergi. En við sjáum að það virkar hér," sagði hann. Um miðjan nóvember upplýstist að metásókn væri hjá Ársreikningaskrá í að gera upp í evrum. Umsóknarfrestur vegna næsta reikningsárs rann út í októberlok. Fjölgun félaga á árinu sem fara vill þessa leið nemur 49 prósentum. „Hér liggja fyrir óafgreiddar umsóknir 53 félaga," sagði Guðmundur Guðbjarnason, forstöðumaður Ársreikningaskrár, í viðtali við blaðið 14. nóvember. Hann kvað slíkan fjölda alveg einstakan og augljóst að ásókn í að gera upp í erlendri mynt væri stóraukin. Í sama blaði kom fram að langflestar af vinsælustu tískuvöruverslununum í miðbæ Reykjavíkur hafa að stórum hluta snúið baki við hefðbundnum auglýsingamiðlum. Í staðinn nýta þær netsamfélög á borð við Myspace og póstlista til að viðhalda sambandi sínu við kúnna og ná í nýja. Þeirra á meðal eru verslanirnar Kron kron, KVK, Glamúr og Nakti apinn. „Myspace hefur virkað miklu betur fyrir okkur en hefðbundnar auglýsingar," sagði Ásgerður Ottesen, stílisti Gyllta kattarins. „Neikvæðar horfur endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Sá efnahagssamdráttur sem nú er hafinn mun hjálpa til við að vinda ofan af efnahagslegu ójafnvægi en sú þróun mun líklega tefjast vegna áætlana um hraða aukningu á útgjöldum hins opinbera sem og því að stöðugt hefur mistekist að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð. Í tengslum við háa og hækkandi innlenda og alþjóðlega vexti munu þessir þættir auka áhættuna af harðri lendingu íslenska hagkerfisins," sagði matsfyrirtækið Standard & Poor's um neikvæðar horfur á lánshæfismati ríkissjóðs sem kynntar voru 20. nóvember. „Þetta kemur á vondum tíma og ég er mjög hissa á að þeir skuli senda frá sér svona tilkynningu á meðan markaðir eru opnir," sagði Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra. Nokkrum dögum fyrr heimilaði Árni Mathiesen Skiptum, sem keyptu Landssíma Íslands af ríkinu í ágúst 2005, að fresta skráningu félagsins í Kauphöll Íslands fram yfir áramót, líkt og félagið hafði leitað eftir. Fjármögnunarkostnaður bankanna við skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum hafði í nóvember margfaldast. Kostnaðaraukning á seinni hluta ársins var sýnu mest hjá Kaupþingi, en þar voru taldar spila inn í vangaveltur um fjármögnun bankans á kaupunum á NIBC í Hollandi. Fyrir mánaðamót kom fram að eigendur FL Group hefðu unnið að því í lokadaga nóvembermánaðar að finna leiðir til að styrkja rekstur félagsins og hafi átt fundi með fjármálafyrirtækjum vegna þess. Samkvæmt heimildum Markaðarins var að því stefnt að hluthafar leggðu til þess meira fé. Viðbúið var að valdahlutföll röskuðust í félaginu. Úrvalsvísitalan lækkaði um nærri fjórtán prósent í nóvember og hefur aldrei lækkað jafnmikið á einum mánuði. BOX: Stork Food Systems í stuttu máli Í byrjun árs kærðu fjárfestingasjóðirnir Centaurus og Paulson stjórnunarhætti hjá Stork N.V. iðnsamstæðunni hollensku. Þar með hófst niðurlag deilu sjóðanna við stjórn Stork um hvort selja mætti frá samstæðunni starfsemi á borð við Stork Food Systems, en því félagið hafði Marel hér heima fullan hug á að sameinast. Raunar höfðu félagin átt í langvinnu samstarfi. Eftir því sem viðskiptadómstóll í Hollandi og sendimenn hans undu ofan af deilu fjárfestingasjóðanna þegar leið á árið breyttust aðstæður ytra. Fjárfestingasjóðurinn Candover gerði yfirtökutilboð í félagið. LME, eignarhaldsfélag Eyris Invest, Landsbankans og Marels, varðist yfirtökunni og jók við eignarhlut sinn í Stork þar til hann var kominn yfir 43 prósent í haust. Við tóku flóknar samningaviðræður sem enduðu með því að Marel fékk að taka yfir Stork Food Systems og verður með því stærsta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, á dreifðum markaði þar sem mikið samþættingarferli fer í hönd. Um leið og þetta gerðist eignðust Eyrir og Landsbankinn hlut í félaginu London Aquisition sem Candover hafði stofnað utan um yfirtökuna. Verið er að ganga frá lausum endum í viðskiptum þessum öllum, fá uppáskrift samkeppnisyfirvalda og annað slíkt, en búist er við að því verði lokið um miðjan febrúar næstkomandi. Fyrstu þreifingar um kaup Marels á Stork Food Systems hófust í nóvember 2005. Samningar um samrunann náðust svo undir lok nóvember á þessu ári og voru kaupin kynnt á fundi í höfuðstöðvum Marel Food Systems 29. nóvember. 14. desember var hins vegar lagt formlega fram yfirtökutilboð London Aquisition í allt hlutafé Stork N.V. Tilboðið hljóðar upp á 48,4 evrur á hlut og átti Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels Food System, ekki von á öðru en yfirtakan gengi vel. „Um 80 prósent hluthafa eru búin að samþykkja þetta og við sjáum ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þetta klárist," sagði hann í viðtali við Markaðinn. Stork hefur boðað til hluthafafundar 4. janúar til að kynna tilboðið.Desember Í desemberbyrjun varð svo ljóst að ekki yrði farin bráðabirgðaleið í skráningu hlutabréfa í evrum í Kauphöll Íslands. Þess í stað á endanleg lausn með aðkomu Seðlabanka Finnlands að vera tilbúin fyrir mitt næsta ár. Í byrjun desember gengu líka loks í gegn breytingar á eignarhaldi Icebank, en fyrr á árinu var aflétt skorðum sem voru á eignarhaldi hans. Icebank hét áður Sparisjóðabankinn. Tilkynnt var um breytingarnar á eignarhaldinu í október. Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Icebank sagði lengri tíma hafa tekið en við var búist að aflétta ákveðnum fyrirvörum sem settir voru vegna kaupanna. Til að mynda hafi tafist uppáskrift lánardrottna á breyttum samþykktum bankans, en þeir voru með hugann við óróa á fjármálamörkuðum. Kvaðirnar sem aflétt var kváðu áður á um að bankinn skyldi alfarið í eigu sparisjóðanna. Fimmtudaginn sjötta desember lækkaði gengi bréfa FL Group um 15 prósent, en það var fyrsti viðskiptadagur eftir að tilkynnt var um umfangsmikla hlutafjáraukningu og forstjóraskipti. Hannes Smárason hætti sem forstjóri og tók sæti í stjórn félagsins. Við starfinu tók Jón Sigurðsson aðstoðarforstjóri. Í lok viðskiptadags 4. desember var send út tilkynning þar sem kynntar voru breytingar til að styrkja stöðu félagsins. „Við erum að vinna í því að styrkja eiginfjárgrunn FL Group svo við getum tekið á okkur áföll ef þau verða. Við tökum líka þátt í hlutafjáraukningunni til að slá á sögur um að allt sé að brenna hjá FL. Þetta er sterkt félag á alla mælikvarða," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson við Fréttablaðið. Boðað er að FL muni fara hægar yfir í fjárfestingum sínum. Hannes Smárason selur ásamt Magnúsi Ármann, Þorsteini M. Jónssyni og Kevin Stanford samanlagt tæp sjö prósenta hlut til Pálma Haraldssonar á genginu 16 en ekki 14,7 eins og Baugur keypti á, að því er fram kemur í umfjöllun Markaðarins um viðskiptin 12. desember. „Þetta var partur af dílnum. Gnúpur selur í FL fyrir um fjóra milljarða til Magnúsar Kristinssonar, eins eiganda Gnúps. Svo virðist sem hluthafar FL Group, sem voru í vandræðum í upphafi, séu að komast á lygnari sjó. Bankamenn eru rólegri fyrir vikið," segir þar. Gengi FL Group hélt áfram að vera brothætt á markaði, en áhugi er engu að síður töluverður á félaginu. Þannig var umframeftirspurn í hlutafjárútboði þess sem lauk 14. desember. Fjárfestar vildu kaupa hlutafé í FL Group fyrir 20,6 milljarða króna og sagði nýi forstjórinn, Jón Sigurðsson, þetta staðfesta trú fjárfesta á breytingum sem kynntar hefðu verið á félaginu. Nýir hlutir voru seldir fyrir um tíu milljarða króna og Baugur Group seldi hlutafé fyrir um fimm milljarða á genginu 14,7. Fjárhagserfiðleikar í óróleika og lausafjárþurrð komu víðar fram. Ellefta desember seldi fjárfestingafélagið Gnúpur bréf í Kaupþingi fyrir að minnsta kosti tuttugu milljarða króna. Gnúpur er í eigu Magnúsar Kristinssonar, Kristins Björnssonar og Þórðar Más Jóhannessonar og hefur verið meðal fimm stærstu hluthafa bankans. Í sömu viðskiptalotu voru tuttugu milljarðar til viðbótar seldir. Hluti af því voru bréf sem Kaupþing átti. Heildarviðskipti með bréf Kaupþings þennan daginn voru yfir fjörutíu milljarðar króna. Um miðjan desember kynnti Landsbankinn fyrirætlanir um að bjóða íbúum á meginlandi Evrópu samskonar innlánsreikninga og bankinn hefur boðið í Bretlandi. „Við þurfum líka evrur, ekki bara pund," sagði Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, en til marks um velgengnina í Bretlandi er að 10 prósent árlegrar viðbótar í innlánum þar runnu inn á reikninga í Icesave. „Engin íslensk vara hefur nokkurn tímann orðið jafn útbreidd meðal almennings á jafnskömmum tíma," sagði Sigurjón og útilokaði ekki að bankinn reyndi síðar að setja reikningana á markað Vestanhafs. Út spurðust starfslok Jóns Karls Ólafssonar um miðjan mánuðinn. Hann lætur 15. janúar næstkomandi af störfum bæði sem forstjóri Icelandair Group og dótturfélagsins Icelandair. Við starfi forstjóra samstæðunnar tekur Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandic Group. Ekki hefur verið ráðinn nýr forstjóri Icelandair. Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, sagði í tilkynningu til Kauphallar 14. desember að umskiptin kæmu í kjölfar skipulagsbreytinga sem ákveðið hafi verið í haust að ráðast í, það er að láta ekki sama manninn gegna starfi forstjóra bæði móður- og dótturfélags Icelandair Group. Ekki er þó svartnættið algjört, þótt sól sé ekki lengi á lofti um þessar mundir. „Vanskil hafa ekki verið lægri sem hlutfall af útlánum á síðustu sjö árum," sagði Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirlitinu í Markaðnum 19. desember og má með góðum vilja lesa úr orðunum jólaljósaglætu. Heildarvanskil við innlánastofnanir sem hlutfall af útlánum nema nú hálfu prósenti. Úr vanskilum fyrirtækja við innlánastofnanir dró um 0,1 prósentustig, milli annars og þriðja fjórðungs, en þau nema nú 0,4 prósentum. Vanskil einstaklinga námu 0,8 prósentum við lok þriðja fjórðungs sem er 0,2 prósentustigum minna en við lok sama fjórðungs í fyrra. Fjármálaeftirlitið vakti þó athygli á að útlánaaukning undanfarinna missera kynni að koma fram í auknum vanskilum síðar. Seðlabanki Íslands ákvað á vaxtaákvörðunarfundi 20. desember að stýrivextir skyldu haldast óbreyttir. Tæpast telst það þó til marks um að slakað hafi verið á klónni, enda hefur vaxtamunur við útlönd aukist með lækkunum stýrivaxta í sumum landanna í kring. Markaðir Mest lesið „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Viðskipti innlent Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Viðskipti innlent Sektuð fyrir að segjast vera best Neytendur Eldamennskan og jólaljósin algengasti brunavaldur um hátíðirnar Samstarf Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Atvinnulíf Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Viðskipti innlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Fleiri fréttir „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Tómar íbúðir á landinu nú um 10 þúsund Keppinautar eigi ekki að opna bækur sínar hver gagnvart öðrum Segir kaupverðið á Mannlífi ekki hátt Hætta í stjórn vegna yfirvofandi kaupa á Mannlífi Heimkaup undir hatt Samkaupa Leggja nýjan jarðstreng til Súðavíkur Heimildin að ganga frá kaupum á Mannlífi Lykilstjórnendur fá skell vegna tugmilljóna hagnaðar Segir eðlilegar skýringar á hæsta raforkuverðinu Sjá meira
Árið 2007 var fjörugt í viðskiptalífinu. Blaðamenn Markaðarins fóru yfir árið og fundu það markverðasta sem gerðist í heimi viðskiptanna. Janúar Í byrjun ársins upplýsti Markaðurinn að hér á landi hefði velta hlutabréfa ellefufaldast frá árinu 2000. Ákveðin stemning var á markaði og hjá bönkunum þóttust menn góðir að hafa staðið af sér orrahríð í umræðu um krosseignarhald, fjármögnun og kerfisvanda vegna smæðar landsins og viðskiptahalla. Skuldatrygginaálag á fimm ára skuldabréf bankanna (CDS) stóð enda í byrjun árs í gildum sem þættu öfundsverð í dag. Álag á bréf Glitnis var nálægt 35 punktum, á Landsbankans rétt um 39 punktar og rétt tæpir 50 punktar á bréf Kaupþings. Þessi gildi smálækkuðu reyndar fram á mitt ár en tóku þá að hækka og eru nú fjórum til sex sinnum hærri en í upphafi árs. Bjartsýni fyrir hönd bankanna einskorðaðist ekki heldur við land og þjóð. Þannig gáfu tveir amerískir risabankar í byrjun janúarmánaðar út verðmat á bréf Kaupþings, Citigroup mat það svo að bréf bankans færu í 1.000 krónur á hlut og fjárfestingabankinn Morgan Stanley gaf út markgengið 956 krónur á hlut. Á þessum tíma var gengi bréfa Kaupþings rétt yfir 890 krónum á hlut, heldur yfir gengi bréfa bankans núna í desember. Málefni Kauphallarinnar voru líka áberandi á fyrstu dögum ársins, en í ársbyrjun var stigið fyrsta skrefið í aðlögun Kauphallarinnar að OMX-kauphallasamstæðunni þegar viðskipti hófust hér á First North hliðarmarkaði OMX. Formlega tók hins vegar OMX við rekstri Kauphallarinnar mánuði fyrr eftir að hafa keypt Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing, sem átti og rak Kauphöllina. Sömuleiðis var áframhald á umræðu um stöðu gjaldeyrismála og vangaveltur um hvort bankarnir kæmu til með að færa eigið fé sitt yfir í evrur. Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings sagði „frásagnir af andláti krónunnar dálítið ýktar" og taldi að áhrifin af yfirfærslu bankanna á eigin fé sínu hefðu verið ofmetin í umræðunni. Um leið sagði hann ljóst að tækju mörg fyrirtæki upp á því að gera upp í evrum sagði hann hlutabréfamarkað hér breytast og færast undan áhrifavaldi Seðlabankans. Væntanlega á þessu umræða jafnvel við í upphafi ársins 2008 og hún gerði fyrir ári síðan, enda unnið að því að félög fái fyrir mitt næsta ár skráð hlutabréf í evrum í Kauphöllinni hér. Krónan hins vegar tók kipp í styrkingarátt þegar Rabobank gaf 11. janúar út þá stærstu krónubréfaútgáfu frá upphafi, upp á 40 milljarða króna. Raunar fór það svo að í janúar var slegið met í útgáfu krónubréfa frá upphafi. Alls gáfu níu erlendir bankar í mánuðinum fyrir 61,5 milljarða króna. Í Grikklandi græddi Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, um 2,5 milljarða króna við sölu á 19 prósenta hlut í gríska fjarskiptafélaginu Forthnet. Slegið var á að á rúmum tveimur árum hafi virði hlutarins hækkað um 50 til 60 prósent. Í lok janúar urðu líka ákveðin tímamót hjá Glitni en þá var Copeinca, fjórði stærsti fiskimjöls- og lýsisframleiðandi Perú, skráð í Kauphöllina í Osló. Glitnir Securities, dótturfélag Glitnis í Noregi, sá um skráninguna en þetta var í fyrsta sinn sem bankinn skráði fyrirtæki í erlenda kauphöll. Í janúarlok kom sömuleiðis fram að Actavis undirbyggi skráningu hlutafjár í evrum og hefði átt fundi um það með bæði Kauphöll og Verðbréfaskráningu. Félagið hafði þá fært bókhald sitt í evrum frá 2003. Í mánuðinum upplýsti Actavis einnig um áhuga sinn á að taka yfir samheitalyfjahluta lyfjarisans Merck, en þær ráðagerðir voru svo blásnar af í maí.Febrúar Í febrúarbyrjun var upplýst um byr sem CCP hafði fengið í seglin hjá sér, en virði félagsins hafði sexfaldast á einu ári. Bandarískur fjárfestingasjóður, General Catalyst Partners, vill auka við fimmtán prósenta hlut sinn og bauð 1.000 krónur fyrir hlutinn. Bent var á að fáir hefðu hagnast meira á pappír á uppgangi CCP en Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, þá átti 38 prósenta hlut. Novator hafði tæpu ári fyrr fjárfest í CCP og greitt 180 krónur fyrir hlutinn samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Seljandi bréfanna var Brú Venture Capital, dótturfélag Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka. Upplýst var í byrjun febrúar að Glitnir hefði eignast yfir 68 prósent hlutafjár í finnska fjármálafyrirtækinu FIM Group og stefndi að yfirtöku á öllu félaginu. Heildarkaupverð var sagt nema þrjátíu milljörðum króna. „Þetta er mjög spennandi tækifæri og nýr markaður sem gefur okkur bæði stökkpall til frekari vaxtar og áhættudreifingar," sagði Bjarni Ármannsson, sem þá var forstjóri Glitnis. Fleiri sprikluðu erlendis. Þegar nálgaðist miðjan mánuðinn var upplýst að fjármálafyrirtækið Exista hefði tryggt sér rúmlega 15 prósenta hlut í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Group, stærsta tryggingafélagi Norðurlanda. Áætlað meðalverð var 20,5 evrur á hlut sem jafngilti því að kaupverðið næmi um 170 milljörðum króna. Á þessum tíma átti Sampo fimm milljarða evra í lausafé. „Við höldum að hægt sé að nota þetta reiðufé til góðra verka," sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Með kaupunum var félagið komið í lykilstöðu fyrir samrunahrinuna sem fyrirsjáanleg var á norrænum fjármálamörkuðum. Í byrjun ársins var greint frá því að FL Group hefði hagnast nokkuð á kaupum sínum á bréfum í AMR Corporation, móðurfélagi American Airlines. Undir lok febrúar var svo upplýst að FL Group væri orðið stærsti einstaki hluthafi félagsins eftir að hafa aukið hlut sinn úr tæpum sex prósentum, sem upplýst var um rétt eftir jólin 2006, í tæp níu prósent. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, sagðist vænta þess að með auknum eignarhlut myndu eitthvað aukast áhrif FL Group á stjórn félagsins. Á sama tíma barðist félagið við að hafa áhrif á annað flugfélag í annarri heimsálfu. Hannes sagðist telja algera tímaskekkju hjá stjórn Finnair og stærsta eigandanum, finnska ríkinu, að neita FL Group um stjórnarsæti í félaginu og ekki til marks um góða stjórnunarhætti. Í Finnair átti félagið þá yfir 22 prósenta hlut, en finnska ríkið 56 prósent. Enn var unnið að því að koma evrubréfum í Kauphöllina og var á seinni hluta febrúarmánaðar upplýst að Deutsche bank kæmi meðal annars til greina sem uppgjörsbanki í lok hvers viðskiptadags vegna viðskiptanna. Actavis hafði eitt uppi fyrirætlanir um evruskráningu, en vitað var að fleiri væru á leiðinni. Í þeim hópi var Marel, Straumur-Burðarás og Exista. Samráðsnefnd Seðlabankans, Verðbréfaskráningar, Kauphallar og annarra vann að málinu. Í mánuðinum var einnig upplýst um stofnun Landsbankans og Landsvirkjunar á félaginu HydroKraft Invest sem átti að fjárfesta á erlendri grundu í verkefnum sem tengdust endurnýjanlegri orkuvinnslu. Þar á bæ er sérstaklega horft til vatnsaflsins, ólíkt því sem gert er hjá fjárfestingafélaginu Geysi Green Energy, sem FL Group, Glitnir og verkfræðistofan VGK-Hönnun stofnaði í byrjun ársins. Þar er áherslan á jarðvarmavirkjanir. Heldur átti Geysir Green eftir að vera meira á milli tannanna á fólki þegar leið á árið. Mars Greiningarfyrirtækið Moody's breytti í febrúarlok aðferðafræði við mat á fjármálastofnunum og hækkaði lánshæfiseinkunn íslenskubankanna allra í fyrsta flokk. Efasemdir voru hins vegar á kreiki um að mat Moody´s á bönkunum yrði varanlegt. Enda hoppaði enginn bankanna hæð sína í loft upp yfir tíðindunum. Aðalástæðan fyrir breyttu mati var ofmat á vægi ríkisins og Seðlabankans sem bakhjarls fyrir bankana. Enda fór það svo að greiningarfyrirtækið tók ákvörðunina aftur og leiðrétti mat sitt á fjölda fjármálafyrirtækja. „Þó svo að bankarnir séu góðir þá var þessi AAA-einkunn alveg út úr korti fyrir þá," sagði Ólafur Ísleifsson, lektor við viðskiptadeild HR, í viðtali við Markaðinn í lok mars. Í mars lækkaði líka alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs, en lét lánshæfi bankanna vera óbreytt. Upplýst var í marsbyrjun að Straumur-Burðarás yrði að öllum líkindum fyrsti íslenski bankinn til að skrá hlutafé sitt í erlendri mynt, en tillaga þess efnis var svo samþykkt á aðalfundi bankans áttunda mars. Þá var í byrjun mánaðarins ljóst að lögð yrði fyrir aðalfund Byrs sparisjóðs (sem til varð fyrir áramótin með samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra) tillaga um heimild til stjórnar til að auka stofnfé sjóðsins í þrjátíu milljarða króna. Aukningin næmi um 130-földun þáverandi stofnfjár. Byr var ekki einn í þessum vangaveltum því í mars höfðu auk hans SPRON, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður Kópavogs, fengið heimild til að sækja sér aukið eigið fé til vaxtar á næstu misserum með útgáfu nýs stofnfjár. Miðað við fulla nýtingu heimilda myndi stofnfé sparisjóðanna fara úr 25 milljörðum í 70. Í árslok 2005 nam bókfært eigið fé alls sparisjóðakerfisins 38,8 milljörðum króna. Í útlöndum birtust feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson á lista Forbes yfir 1.000 auðugustu menn heims. Sá yngri var í 249. sæti og sá eldri í sæti 799. Feðgarnir eru einu Íslendingarnir á listanum, en þar hafði Björgólfur Thor þó sést áður. Hann hækkaði um 101 sæti á listanum milli ára. Þá útnefndi viðskiptatímaritið CNBC European Business upplýsingatæknifyrirtækið Industria sem eitt af 50 framsæknustu fyrirtækjum Evrópu. Tuttugasta mars veittu norsk fjármálayfirvöld Kaupþingi leyfi til að eignast allt að 19,99 prósent í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand. Í Dagens Næringsliv kom fram að Kaupþing óskaði eftir heimild að fara með allt að fjórðungshlut. Stjórnendur Kaupþings biðu ekki boðanna og fóru með hlut sinn úr rúmum níu prósentum í 10,43 prósent. Hlutur Kaupþings var metinn á 27 milljarða króna. Í mars leit einnig dagsins ljós nýjasta aflið á íslenskum fjármálamarkaði, Saga Capital á Akureyri, en í lok mánaðarins áttu forsvarsmenn bankans von á starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti „á næstu dögum". Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, sagði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkað innan fjögurra ára. Apríl Í byrjun apríl fóru félögin 25 sem skráð voru í íslensku kauphöllina inn á samnorrænan lista OMX kauphallasamstæðunnar og eftirleiðis kynnt með sænskum, finnskum og dönskum félögum. Í Glitni var næðingssamt í byrjun apríl sökum deilna í eigendahópi bankans. Óvissa var um hver niðurstaða yrði í deilum milli stærstu hluthafa. Í kekki kastaðist þegar fulltrúar FL Group í stjórninni fóru fram á að taka við stjórnarformennsku í bankanum. Það fór enda svo á fyrstu dögum mánaðarins að Milestone undir forystu Karls Wernerssonar og Einars Sveinssonar, formanns stjórnar bankans, og aðilar tengdir honum seldu mestallan hlut sinn í Glitni. Alls skiptu hlutir fyrir 110 milljarða króna um hendur. Undir lok mánaðarins tóku forsvarsmenn FL Group, samkvæmt heimildum Markaðarins heldur fálega í þá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins að takmarka atkvæðisrétt stærstu eigenda í Glitni. Fyrir hluthafafundi í Glitni í apríllok tilkynnti FME um að sameiginlegur atkvæðisréttur FL Group, sem réði um 32 prósenta hlut í Glitni, og Elliðahamars, Jötuns Holding og Sunds og aðila þeim tengdra í Glitni hefði verið takmarkaður við 32,99 prósenta eignarhlut. Eftirlitið kannaði í kjölfar viðskiptanna í byrjun mánaðarins hvort samstarf hefði myndast um meðferð virks eignarhlutar í Glitni á milli FL Group og þessara aðila og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ekki reyndi á takmörkunina á hluthafafundi bankans, enda ný stjórn sjálfkjörin. Mánudagurinn 30. apríl markaði hins vegar þáttaskil í sögu íslensks viðskiptalífs því þennan sama dag og Glitnir greindi frá sjö milljarða króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi lét Bjarni Ármannsson af störfum sem bankastjóri í kjölfar þess að ný stjórn var kjörinn á hluthafafundi bankans. Við tók Lárus Welding, rúmlega þrítugur framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Afsögn Bjarna kom hins vegar ekki á óvart, enda hafði verið þrálátur orðrómur um brotthvarf hans úr Glitni í mánuðinum eftir breytingar á eignarhaldi bankans. Vel þótti ganga í undirbúningi evruskráningar hlutabréfa og boðaði Þórður Friðjónsson, kauphallarforstjóri að boðið yrði upp á slíka skráningu þegar líða tæki á árið. Hann sagði þó ákveðnar flækjur til staðar. „Þetta er náttúrulega ekki að fullu í okkar höndum, heldur snýr þetta að ákveðnum reglugerðabreytingum. Við munum hins vegar bjóða þessa þjónustu, spurningin er bara hvaða leið verður farin í tæknilegri útfærslu," sagði hann. Samráðsnefnd um samskipti verðbréfamiðsöðva, kauphalla og Seðlabanka fór enn yfir málin. Finnska tryggingaeftirlitið gerði samkvæmt bréfi til Existu á fyrstu dögum aprílmánaðar ekki athugasemd við að félagið færi með 15,58 prósent heildarhlutafjár í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Oyj. Ellefta apríl var gengið frá kaupum Existu á 9,5 prósenta hlut í Sampo sem tilkynnt var um í byrjun febrúar. Kaupvirði hlutarins var um 170 milljarðar króna og Exista eftir kaupin er orðið stærsti hluthafinn í Sampo Group, stærsta fjármálafyrirtækis Finnlands og stærsta tryggingafélags Norðurlanda. Þær létu ekki mikið yfir sér fregnir af bandarískum fasteignamarkaði á fyrri hluta ársins en áttu þó heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Markaðurinn fjallaði um málið í opnuúttekt ellefta apríl en þar kom fram að helstu fjármálamarkaðir í heimi hefðu tekið dýfu í kjölfar mikillar aukningar vanskila á bandarískum fasteignamarkaði um miðjan mars. „Um nokkuð sérstakan markað var að ræða, svokallaðan „subprime" markað, sem útlagst getur sem undirmálsmarkaður, enda stærstur hluti lánþega fasteignaeigendur sem eru í lægri tekjuflokkum og hafa verra lánshæfi. Þá hafa einhverjir lent á svörtum lista lánastofnana. Nokkrar lánastofnanir sem hafa einbeitt sér að þessum markaði lentu í erfiðleikum í kjölfarið og hefur ein þeirra farið fram á greiðslustöðvun. Gert er ráð fyrir eignaupptöku í skuldir vegna þessa," sagði í úttektinni. Kaupþing dúkkaði upp í 795. sæti á nýjasta lista alþjóðlega viðskiptatímaritsins Forbes yfir stærstu fyrirtæki veraldar. Bankinn skákaði meðal annars Starbucks, Adidas og Carlsberg. Þá var Glitnir tilnefndur Glitnir banki hefur verið tilnefndur til Sjálfbærnisverðlauna Financial Times í flokknum Sjálfbæri samningur ársins. Financial Times og IFC, einkageiraarmur Alþjóðabankastofnananna, stofnuðu til verðlaunanna til að veita viðurkenningu bönkum sem hafa sýnt frumkvæði og nýbreytni við að fella félags- og umhverfismarkmið saman við starfsemi sína. Tilnefning Glitnis var fyrir þátttöku bankans í jarðhitaverkefni í borginni Xian Yang í Kína. Fyrstu vísbendingar um væringar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum litu dagsins ljós undir lok apríl en þá höfðu hlutabréf í Vinnslustöðinni skipt um hendur á genginu 6,0 til 7,0 krónur á hlut, langt yfir væntanlegu yfirtökutilboði frá meirihluthafahópi félagsins. Í apríllok var Actavis meðal fjögurra félaga sem skiluðu inn bindandi tilboðum í samheitalyfjahluta Merck. Margt þótti benda til þess að lokaslagurinn um félagið yrði milli Actavis og Teva. Í byrjun maí varð hins vegar ljóst að Actavis drægi sig úr slagnum.Maí Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, hagnaðist um 55 til 60 milljarða króna þegar seldur var 85 prósenta hlutur félagsins í búlgarska símafélaginu BTC. Bandaríska fjármálafyrirtækið AIG Global Investment Group keypti á 160 milljarða króna. Hagnaður annarra íslenskra fjárfesta í viðskiptunum var nálægt sex milljörðum og ávöxtun nærri fimmföld. Níunda maí opinberaði hópur Eyjamanna, með meirihluta hlutafjár í Vinnslustöðinni, yfirtökutilboð í félagið þar sem boðnar voru 4,6 krónur fyrir hvern hlut. Tilboðið var ekki hækkað þótt síðasta viðskiptagengi Vinnslustöðvarinnar hefði verið 8,3 krónur á hlut, 70 prósent yfir tilboðsverðinu. Hluthafar í Vinnslustöðinni voru greinilega ekki á eitt sáttir um verðmæti „síðasta móhíkanans", eins og síðasta útgerðarfélagið á Aðallista Kauphallar hefur verið kallað. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sem fór fyrir ríflega þrjátíu prósentum hlutafjár í Vinnslustöðinni, sagði yfirtökutilboðið of lágt. Stemning var enn góð á markaði 15. maí þegar Úrvalsvísitalan rauf 8.000 stiga múrinn í fyrsta sinn. Hækkun frá áramótum nam fjórðungi. Tveimur árum fyrr stóð Úrvalsvísitalan í 4.050 stigum. Fjárfestar voru taldir taka vel niðurstöðum þingkosninga, því auk hækkana á hlutabréfamarkaði styrktist gengi krónunnar þarna um miðjan maí. Í annarri viku maímaðar gaf Icelandair Group líka út viljayfirlýsingu um kaup á Travel Service, stærsta einkarekna flugfélagi Tékklands. Gengju kaupin eftir myndi velta Icelandair Group aukast um tæpan þriðjung. Travel Service er leiguflugfélag og rekur auk þess lággjaldaflugfélagið Smart Wings. Það er langstærst á sínu sviði í leigu- og áætlunarflugi í Tékklandi og teygir einnig anga sína inn í Ungverjaland. Víðar voru yfirtökutilburðir í gangi. Björgólfur Thor Björgólfsson vildi eignast allt hlutafé í Actavis Group í gegnum fjárfestingafélag sitt Novator og ætlaði að bjóða hluthöfum 85,23 krónur á hlut. Þessi dans átti eftir að teygja sig út í sumarið með nýju og hækkuðu yfirtökutilboði í júní. Þá tók Straumur-Burðarás stefnuna á 22 milljarða yfirtöku 22. maí þegar upplýst var um kaup á 62 prósenta hlut í eQ Corporation, finnskum banka sérhæfðum í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Í framhaldinu átti að gera yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti bankans sem eftir stæðu. Á sama tíma var tilkynnt um að Alfesca hefði náð samningum um yfirtöku á franska matvælafyrirtækinu Le Traiteur Grec, sem framleiðir viðbit úr grænmeti fyrir stórmarkaði í Frakklandi. Kaupverð nam 19,7 milljónum evra, jafnvirði 1.669 milljóna íslenskra króna. Á lokadögum maímánaðar tilkynnti Ole Vagner, stofnandi danska fasteignafélagsins Keops, að hann samþykkti tilboð Pálma Haraldssonar í nær allt hlutafé hans í félaginu upp á 24 danskar krónur á hlut. Þá var upplýst um samning Eimskips um kaup á fjórðungi hlutafjár í kanadíska félaginu Versacold Income Fund. Með þessu ætlaði Eimskip að verða langstærsta kæli- og frystigeymslufyrirtæki heims. Markaðurinn greindi frá því 23. maí að peningamarkaðssjóðir tútnuðu út. Fjárfestar voru sagði fá um tólf prósenta raunávöxtun af áhættulitlum sjóðum. Stærð verðbréfasjóðanna var ekki sögð undir þrjú hundruð milljörðum króna. Í lok maí kom svo fram að Century Aluminum Company, móðurfélag Norðuráls, hefði farið fram á skráningu á First North Iceland-hlutabréfalistann. Félagið er skráð á Nasdaqmarkaðinn bandaríska og stefndi í að verða fyrsta skráða fyrirtækið í Bandaríkjunum til að fá skráningu hér. Félagið var skráð á markaðinn um miðjan júní. Fleiri komu til landsins úr vesturheimi í lok mánaðarins. William Fall tók við forstjórastöðu Straums-Burðaráss og Friðrik Jóhannsson yfirgaf forstjórastólinn eftir tæplega ársstarf hjá bankanum. William er fyrrum forstjóri alþjóðasviðs Bank of America, næststærsta banka í heimi. Hann lét af störfum þar af persónulegum ári fyrr og var að hugsa sér til hreyfings á ný þegar sameiginlegur vinur kynnti hann fyrir Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Straums-Burðaráss. Júní Í byrjun júní seldi FL Group alla hluti sína, 10,76 prósent, í danska raftækjaframleiðandanum Bang & Olufsen fyrir 10,2 milljarða króna. Tap FL Group á fjárfestingunni nam um 100 milljónum króna. Þá var slagur hafinn um Vinnslustöðina. Bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir lögðu fram gagntilboð í allt hlutafé útgerðarfélagsins sem var 85 prósentum hærra en yfirtökutilboð Eyjamanna ehf. Rífandi gangur var enn í Kauphöllinni. Úrvalsvísitalan hafði tvöfaldast á tveimur árum og gengi sumra hlutabréfa tífaldast á öldinni og menn bjartsýnir um framþróun markaðarins. Aukin velta og þátttaka útlendinga, fjölgun skráðra félaga og væntingar um frekari fjárfestingar fyrirtækja voru sagðar geta stutt við vöxtinn. Eimskip samdi um kaup á öllu hlutafé Innovate fyrir um fjóra milljarða króna, en hafði keypt helminginn rúmu ári fyrr. Greitt var fyrir kaupin með útgáfu nýs hlutafjár og urðu fyrri eigendur Innovate meðal stærstu hluthafa Eimskips við kaupin. Í efnahagsmálum voru blikur á lofti, en á fyrri hluta ársins voru vangaveltur um hvort ekki færi að ljúka hér skeiði hárra stýrivaxta. Útlitið efnahagsmálum var sagt svartara en áður hafði verið talið. Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gaf til kynna að hagvöxtur yrði minni og verðbólga meiri en áður var spáð. Undir lok júní hækkaði Novator yfirtökutilboð sitt í Actavis úr 0,98 evrum á hlut í 1,075 evrur á hlut. Stjórn Actavis studdi nýtt yfirtökutilboð, en hafði talað gegn hinu fyrra. Aðstandendur Novators greindu frá því að hluthöfum sem hefðu áhuga á að eiga áfram hlut sinn í Actavis, þrátt fyrir afskráningu félagsins, stæði það ekki til boða. Talsmaður Björgólf sagði forsendu fjármögnunar og lána frá hendi lánveitenda vera að um full yfirráð yfir félaginu yrði að ræða. Í júnílok voru í fyrsta skipti fimm fyrirtæki í Kauphöll Íslands metin á þrjú hundruð milljarða króna eða meira. Fyrirtækin voru fjármálafyrirtækin Kaupþing, Glitnir, Landsbankinn og Exista og samheitalyfjafyrirtækið Actavis sem datt inn í hópinn eftir að Novator hækkaði yfirtökutilboð sitt í félagið. Átta stærstu félögin í Kauphöllinni voru alls metin á tæpa þrjú þúsund milljarða króna. Innan Glitnis var í Noregi hafin aðgerð „Albatros" en hún sneri að mótun framtíðarskipulags bankans þar í landi. Bankinn ætlaði að óska eftir heimild til að samræma starfsemina í Noregi, þar á meðal að fella Bolig- og Næringsbanken (BNbank) og Glitnir Bank í eina sterka heild. Höfuðstöðvar Glitnis Bank yrðu í Þrándheimi en fyrirtækjabankastarfsemin í Álasundi. Júlí Í júlíbyrjun má segja að sýn landans á framþróun efnhagsmála á árinu hafi verið hvað skökkust, svona eftir á að hyggja. Þannig var niðurskurður í aflaheimildum og fyrirséðar breytingar á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs taldar stuðla að hjöðnun í hagkerfinu og gætu boðað hraðari lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Ekki var þó búist við að bankinn hreyfði við stýrivöxtum á vaxtaákvörðunardeginum 5. júlí, enda varð sú ekki raunin. Sérfræðingar voru hins vegar afar bjartsýnir fyrir hönd markaðarins í júlí og spáðu greiningardeildir bankanna hækkun úrvalsvísitölunar allt frá 37 til 48 prósenta á árinu.Vísitalan hafði þá hækkað ört fyrstu vikuna í mánuðinum, var komin yfir 8.500 stig. Greiningardeild Landsbankans benti þó á að gengi hlutabréfa hefði hækkað mikið það sem af var ári og taldi líkur á að hækkanir yrðu minni á seinni hluta ársins. Úrvalsvísitalan var engu að síður í hillingum framtíðarsýnarinnar í 9.000 til 9.500 stigum þegar greiningardeildir bankanna þriggja höfðu allar sett fram spár sínar skömmu fyrir miðjan mánuðinn. Samruni Kauphallar Íslands og OMX samstæðunnar var nýfullkomnaður þegar næsta ferli fór í gang. Í júlíbyrjun var gert ráð fyrir að um þessi áramót yrði sameiningu kauphallarsamstæðanna NASDAQ og OMX lokið. Nýja kauphallarsamstæðan var sögð munu verða önnur tveggja stærstu kauphalla í veröldinni ásamt sameinaðri kauphöll New York Stock Exchange og Euronext. Ellefta júlí varð Eik Bank Group þriðja færeyska fyrirtækið til að skrá hlutabréf sín í Kauphöll Íslands. Yfir 600 Íslendingar voru þá meðal hluthafa og bankinn hafði verið í nánu samstarfi við íslenska fjárfesta. Marner Jacobsen, forstjóri Eik Banka, sagði aðdraganda skráningarinnar mega rekja aftur til tíunda áratugar síðustu aldar, þegar íslenska kauphöllin sýndi Færeyingum meiri áhuga en sú danska. Þá var Kauphöll Íslands talin hafa aðra kosti, var ódýrari en sú danska og hentugri fyrir smærri fyrirtæki. „Þannig hefur það verið eðlilegt fyrir færeysk félög að velja Kauphöll Íslands sem meginskráningarstað. Það á við um Atlantic Petroleum, Føroya Banka og okkur," sagði Marner í viðtali við Markaðinn. Upp úr miðjum mánuði var líka greint frá fyrirætlunum um að skrá SPRON í Kauphöllina. Verðmæti SPRON var 60 milljarðar króna samkvæmt mati Capacent. 85 prósent áttu að verða í eigu stofnfjáreigenda, en 15 milljarðar í eigu sjálfseignarstofnunar. Fjármálaeftirlitið gerði um miðjan júlí alvarlegar athugasemdir við starfsemi Nordvest. Starfsmenn félagsins voru jafnvel sagðir hafa framkvæmt eigin viðskipti. „Við erum búnir að bæta úr þeim göllum sem FME gerði athugasemdir við," sagði Skúli Sveinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Icelandair var með fyrstu félögum til að festa sér nýjar og byltingarkenndar 787 þotur frá Boeing sem nefndar hafa verið „Dreamliner". Raunar var félagið fyrsta af evrópskum flugfélögum til að fara þessa leið og sagði Jón Karl Ólafsson forstjóri það njóta þess í kjörum, auk þess sem tækifæri sköpuðust í mögulegri endursölu á vélunum. Margra ára biðlisti er eftir vélunum en Icelandair fær sínar fjórar afhentar árin 2010 og 2012. Upp úr miðjum mánuði hafði Novator tryggt sér yfir 90 prósent hlutafjár í Actavis og full yfirtaka og afkráning úr Kauphöll stóð því fyrir dyrum.Ágúst Um mánaðamót júlí og ágúst tók að bera á lækkunum í kauphöll, nokkuð sem fjárfestar hér höfðu ekki átt að venjast í alllanga hríð. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hafði lækkað um tæplega 4,5 prósent vikuna fyrir mánaðamótin. Lækkunin var sögð í samræmi við lækkanir erlendis og til marks um hversu alþjóðlegur hlutabréfamarkaður hér væri að verða. „Mörg félögin hér á landi eru með fjárfestingar og starfsemi erlendis. Þá eru margir innlendir fjárfestar sem eiga eignir í útlöndum, auk þess sem stórir erlendir fjárfestar eru orðnir umsvifamiklir á íslenskum fjármálamarkaði. Allt þetta er til marks um hversu alþjóðlegt viðskiptalífið er orðið," sagði Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis. Þá var að ljúka yfirtöku Eimskips á kæli- og frystigeymslufyrirtækinu Versacold Income Fund í Kanada og var þar með orðið stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heimi. Samþykki náðist um kaup á 93 prósenta hlut í félaginu í kjölfar yfirtökutilboðsins sem sett var fram í maílok. Að auki voru fengin öll leyfi fyrir yfirtökunni hjá kanadískum yfirvöldum. Atorka „sannaði sig" á fyrsta degi ágústmánaðar þegar félagið seldi Jarðboranir hf. til Geysis Green Energy fyrir 14,3 milljarða króna. Hagnaður Atorku af sölunni nam ellefu milljörðum króna. Að auki keypti Geysir Green sextán prósenta hlut í Enex. Samhliða sölunni keypti Atorka 32 prósenta hlut í Geysi fyrir rúma sjö milljarða og var með því orðinn kjölfestufjárfestir í félaginu. Þegar lokað var fyrir með viðskipti á stofnfjárbréfum í SPRON þann 7. ágúst var stofnfé sparisjóðsins metið á rúma 103 milljarða króna, hátt yfir 59,4 milljarða króna verðmati Capacent ráðgjafar vegna skráningar félagsins. Núna rétt fyrir jól, eftir skráningu og að undangengnum lækkunum vegna markaðsóróa, stóð markaðsviði SPRON í kauphöll nærri 44 milljörðum króna. En hækkanir ágústmánaðar benti Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, á að verðmat Capacent miðaðist við 1. apríl. Formaður Samtaka kvikmyndaframleiðenda á Indlandi, Amit Khanna, sótti landið heim um miðjan ágúst. Hann taldi Ísland að mörgu leyti ákjósanlegan tökustað fyrir indverskar kvikmyndir. Khanna er stjórnarformaður eins stærsta afþreyingarfyrirtækis á Indlandi, Reliance Entertainment. Bollywood var sagt nær en margan kynni að gruna. Um miðjan ágúst var upplýst um 270 milljarða króna yfirtöku Kaupþings á hollenska bankanum NIBC. Yfirtakan er stærsta erlenda fjárfesting íslensks fyrirtækis til þessa. Forsvarsmenn Kaupþings sögðust líta á kaupin sem stökkpall inn í Benelux-löndin þar sem bankinn hafi ekki haft starfsemi, auk þess sem þau bjóði upp á ýmis tækifæri í Þýskalandi. „Þetta er frábær fjárfesting, ekki bara fyrir Kaupþing heldur einnig fyrir NIBC," sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings. Kaupverðið var greitt með útgáfu hlutafjár og í reiðufé. Skuldbindingar NIBC vegna amerískra undirmálslána fylgdu ekki með í kaupunum, heldur voru færðar í sérfélag. Michael Enthoven, forstjóri NIBC, sagði húsnæðiskrísuna í Bandaríkjunum hafa reynst lán í óláni fyrir bankann. Til hafi staðið að skrá bankann á markaði í Hollandi undir eigin nafni. „Yfirtaka Kaupþings er mun betri kostur," sagði Enthoven. Út kvisaðist á seinni hluta mánaðarins að Straumur-Burðarás væri einna lengst kominn í undirbúningi evruskráningar hlutabréfa. Áætlanir Kauphallar og Verðbréfaskráningar miðuðu við að félög gætu skráð bréf sín í evrum fyrir lok september. Fara átti bráðabirgðaleið þar sem Landsbanki Íslands tæki að sér hlutverk uppgjörsbanka. Seðlabanki Finnlands átti svo að taka að sér uppgjörið til framtíðar snemma næsta sumar. Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri 6.600 fermetra átöppunarverksmiðju félagsins í Þorlákshöfn undir lok ágústmánaðar. Stefnt er að því að verksmiðjan verði fullbúin næsta sumar og geti náð í áföngum allt að 250 milljón lítra afkastagetu á ári en reiknað er með að um 35 til 40 manns muni starfa við framleiðsluna.September Ákveðin viðhorfsbreyting var talin hafa átt sér stað í garð íslenskra athafnamanna í Danmörku undir sumarlok. Skarphéðinn Berg Steinarssonar, forstjóri Stoða, taldi ákvörðun þrjú hundruð danskra fjárfesta að taka bréf í Stoðum í skiptum fyrir hluti sína í Keops vera til marks um þessa viðhorfsbreytingu. „Fyrir skömmu hefði þótt óhugsandi að danskir fjárfestar ættu bréf í íslensku félagi sem enn er óskráð," sagði hann. Karsten Poulsen, framkvæmdastjóri Keops, segist oft á tíðum hafa orðið forviða á neikvæðri umfjöllun um íslenska fjárfesta í Danmörku, enda hafi hann ekkert nema gott um Íslendingana að segja. „Ég held að ástæðan sé einfaldlega sú að Íslendingarnir eru snöggir að taka ákvarðanir, og fljótir að láta kné fylgja kviði. Nokkuð sem kannski tíðkast ekki hér í Danmörku." Ísland og Lettland voru í skýrslu matsfyrirtækisins Standard and Poor´s sögð vera þau lönd Evrópu sem verða verst úti vegna herts aðgengis að lánsfé á alþjóðamörkuðum, í kjölfar bandarísku húsnæðislánakrísunnar. Í skýrslunni var bent á að ofþensla hafi verið í íslenska hagkerfinu undanfarin misseri; húsnæðismarkaðurinn hafi verið í hæstu hæðum og eftirspurn eftir lánsfé gríðarleg. Þá hafi íslensku bankarnir stundað skuldsettar yfirtökur í miklum mæli. Leiddar voru að því líkur að því að Seðlabankinn kynni að þurfa að hækka stýrivexti enn frekar. Þeir stóðu á þessum tíma í 13,3 prósentum. Í septemberbyrjun tók stjórn Straums-Burðaráss formlega að skrá hlutafé sitt í evrum í stað íslenskra króna frá og með 20. september næstkomandi. William Fall forstjóri sagði þetta eðlilega þróun þar sem bankinn hafi tekið að gera upp í evrum undir lok síðasta árs auk þess sem áttatíu prósent af tekjum bankans komi erlendis frá. Rúmri viku síðar upplýsti Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings um að lagt yrði fyrir stjórnarfund að færa bókhald og hlutabréf bankans yfir í evrur. Kauphallarevrusnjóboltinn var heldur tekinn að bæta utan á sig og auka hraðann. Önnur félög á leið í evruna eru til dæmis Alfesca, Marel og Exista. Evruskráning hlutabréfa frestaðist hins vegar eftir að fram komu athugasemdir frá Seðlabanka Íslands viku áður en skráning bréfa Straums átti að eiga sér stað. Bankinn túlkar lög þannig að öðrum bönkum en Seðlabanka sé óheimilt að annast lokauppgjör verðbréfaviðskipta. Vinna að nýrri lausn var hafin og óvíst um málalyktir. „Við hefðum gjarnan viljað sjá þessar athugasemdir koma fyrr fram," sagði Einar Sigurjónsson, forstjóri Verðbréfaskráninar Íslands. Forsvarsmenn Símans voru snemma í september sagðir kunna að fara fram á undanþágu frá samkomulagi sínu við einkavæðingarnefnd þess efnis að skrá Símann á hlutabréfamarkað fyrir árslok, yrðu aðstæður á markaði óheppilegar. „Það getur ekki verið tilgangur ríkisins að selja bréf á lágu verði. Samkomulagið er gert með það í huga að markaðsaðstæður verði eðlilegar og nú er það okkar að fylgjast með því," sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans. Greiningardeildri bankanna sáu ekki ástæðu til þess á fyrri hluta mánaðarins til að endurskoða spár um afkomu á hlutabréfamarkaði þrátt fyrir miklar sveiflur undangengnar sex vikur og óróa á alþjóðamörkuðum. Bankarnir höfðu spáðu því að úrvalsvísitalan myndi enda árið í ár á bilinu 8.500 til 9.300 stigum. Nafni Greiðslumiðlunar - VISA Íslands var snemma í september breytt í Valitor ásamt því sem ráðist var í áherslu- og skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu. Ástæða breytinganna var sögð vera vaxandi starfsemi utan landsteinanna og aukin breidd í þjónustu fyrirtækisins. Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri Valitor, sagði verið að styrkja stoðir fyrirtækisins í flóknara samkeppnisumhverfi. Nick Leeson komst á spjöld sögunnar árið 1995 þegar hann gerði einn elsta og virðulegasta banka Bretlands gjaldþrota með áhættusömum gjaldeyrisviðskiptum. Þessi alræmdasti verðbréfamiðlari heims sótti landið heim, flutti erindi og ræddi við Markaðinn um spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði og lífsins gang. Um miðjan mánuðinn var Travel Service í Tékklandi í höfn hjá Icelandair Group. Skrifað hafði verið undir samning um kaupin, en viljayfirlýsing um þau hafði verði undirrituð í maí. Um miðjan september sagði Hannes Smárason, forstjóri FL Group, tækifæri Tryggingamiðstöðvarinnar felast í ytri vexti, en verið var að kaupa félagið að fullu. Heldur var tekið að næða um FL Group í óróa á fjármálamörkuðum. Þarna stóð gengi félagsins í rúmum 24 krónum á hlut og hafði lækkað um tæplega tuttugu og eitt prósent frá 19. júlí. Hannes segist lítið geta tjáð sig um hvort verðlagning félagsins sé sanngjörn, en sagði þó mögulegt að draga ákveðnar ályktanir. „Ég keypti í FL Group fyrir sex milljarða á mánudaginn. Ég hefði nú varla gert það ef ég teldi félagið of dýrt." Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og fjárfestir, sagðist í viðtali við Markaðinn 19. september sjá Geysi Green Energy fyrir sér sem sem langtímafjárfestingu. Hann sagði Goldman Sachs bankann bestu viðbót við hluthafahópinn sem völ hafi verið á, en nokkur styr hafði staðið um aðkomu hans vegna óbeins eignarhalds sem þá varð til í orkufyrirtækjum hér .Ólafur Jóhann taldi athugasemdir við að útlendingar eignuðust hlut í íslenskum auðlindum jaðra við hræsni, enda markmið félaga á borð við Geysi Green að komast yfir sem mest af auðlindum utan landsteinanna. Október Erlendir starfsmenn íslenskra fyrirtækja sem eru með starfsemi erlendis eru næstum jafnmargir öllu starfandi fólki hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjunum þá eru tæplega 163 þúsund erlendir starfsmenn hið minnsta á launaskrá hjá íslenskum fyrirtækjum á erlendri grund. ÍTil samanburðar voru rétt tæplega 170 þúsund starfandi karlar og konur hér á landi í fyrra. Í október fór á flug umræða um eðli og tilurð REI, fjárfestingararms orkuveitunnar í orkuiðnaði í samstarfi við einkaaðila. Umræðan fékk vind í stórseglin eftir að upplýst var um fyrirhugaða sameiningu REI og Geysis Green Energy. Meðan hnýtt var í REI og Orkuveituna horfði enginn til útrásar Landsvirkjunar og Landsbankans í gegnum HydroKraft Invest. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, benti enda á að sú útrás væri í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí. Í henni er talað um að tímabært sé „að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja". Aukinheldur taldi Friðrik umræðu sem í gangi var um útrás Orkuveitunnar með REI ekki eiga við um HydroKraft, sem væri að helmingi í eigu dótturfélags Landsvirkjunar. Hann benti á að Landsvirkjun væri líka eingöngu í samkeppnis-, en ekki einkaleyfisbundinni, starfsemi. Í októberbyrjun tók Sigurður Viðarsson við sem forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar af Óskari Magnússyni. Óskar var þarna í fjórða sinn að hverfa frá stjórn fyrirtækis eftir að það hafði verði keypt af félagi tengdu Baugi. „Ég er auðvitað bara stoltur af því að þau fyrirtæki sem ég hef stjórnað séu eftirsóknarverð. Þau hafa öll verið seld á mjög háu verði, margföldu því sem var þegar ég tók við þeim," sagði hann. Hlutabréf iðnfyrirtækisins Promens, dótturfélags Atorku, verða skráð í evrum, upplýsti Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri fyrirtækisins snemma í október. Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöllina hér á næsta ári. „Langstærstur hluti af okkar rekstri er í evrum og á evrusvæði. Við stefnum því að skráningu í evrum og vonandi verða ekki á því vandkvæði," sagði hún og taldi evruskráninguna lykilatriði. „Það ræður náttúrlega enginn yfir gengi krónunnar og tenging við hana myndi verða til vandkvæða." Upplýst var í Markaðnum 17. október að Carbon Recycling International, félag í eigu bandarískra og íslenskra aðila, hefði skrifað undir viljayfirlýsingu við íslenskt raforkufyrirtæki um byggingu þriggja til fimm megavatta tilraunaverksmiðju hér á landi þar sem vinna á raforku úr menguðum útblæstri. Gangi allt eftir er reiknað með að tæknin geti til dæmis minnkað losun koltvísýringsútblásturs álvera um rúm níutíu prósent. Um miðjan október keypti Frosti Bergsson fjárfestir starfsemi Opinna kerfa hér á landi af Hands Holding. Um leið átti sér stað ákveðin uppstokkun milli Teymis og Hands Holding. Teymi keypti allt hlutafé í Landsteinum Streng og Hugi Ax, um leið og félagið seldi ríflega 80 prósent af eignarhlut sínum í Hands Holding. Sama dag keypti Nýherji TM Software. Sjö mínútur liðu á milli tilkynninga þessara risa upplýsingatæknimarkaðarins hér. Fyrst kom Nýherjjatilkynningin og svo frá Teymi í kjölfarið. Kaupþing kynnti efnhagshorfuspá seint í október. Í hliðarspá kom fram að á næstunni mætti reikna með að helmingur félaga að markaðsvirði í Kauphöll Íslands verði komin í evrur jafnskjótt og færi gefst. Sömuleiðis kom fram að miðað við þau félög á Aðallista Kauphallarinnar sem greiningardeild Kaupþings telur líkleg til að færa hlutafé sitt í erlenda mynt verða um 94 prósent markaðsvirðis í Kauphöllinni þannig skráð innan tveggja ára. Í þeim hópi eru allir bankarnir. Í úttekt Markaðarins í októberlok kom fram að viðskiptabankarnir þrír, Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn, hafi eytt sem svarar 544 milljörðum króna í helstu fyrirtækjakaup og samruna í útlöndum. Kaupþing á 78 prósent upphæðarinnar. 30. október lauk á nokkrum klukkustundum hlutafjárútboði Össurar sem taka átti nokkra daga. „Útboðið gekk mjög vel og stóru tíðindin voru kannski þau að ATP, stærsti og virtasti lífeyrissjóður Dana, keypti í einu lagi 42 prósent af útboðinu," sagði Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins, glaðbeittur að því loknu. „ATP er aðallífeyrissjóður Dana og eini opinberi lífeyrissjóðurinn þar í landi," sagði hann og benti á að aðkoma sjóðsins væri þvert á umtal sem verið hafi um íslensk fyrirtæki, útrás þeirra og íslenskt efnahagslíf í Danmörku undanfarið.Nóvember Seðlabanki Íslans hækkaði stýrivexti um 45 punkta, í 13,75 prósent fyrsta dag nóvembermánaðar. Vextir yrðu næst endurskoðaðir á aukavaxtaákvörðunardegi 20. desember. „Það væri ekki trúverðugt fyrir bankann að segja einu sinni enn að ef þetta héldi áfram að versna að þá myndum við bregðast við," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri um hækkun stýrivaxtanna í viðtali við Markaðinn. Hann sagði ljóst að langan tíma tæki fyrir stýrivexti að bíta en hugsanlega væri rót gagnrýni á peningamálastefnu bankans, sem gerðist á þessum tíma æ háværari, að vextirnir væru farnir að hafa áhrif. „Við höfum aldrei sagt að þetta virki eins og skot. Það gerir það hvergi. En við sjáum að það virkar hér," sagði hann. Um miðjan nóvember upplýstist að metásókn væri hjá Ársreikningaskrá í að gera upp í evrum. Umsóknarfrestur vegna næsta reikningsárs rann út í októberlok. Fjölgun félaga á árinu sem fara vill þessa leið nemur 49 prósentum. „Hér liggja fyrir óafgreiddar umsóknir 53 félaga," sagði Guðmundur Guðbjarnason, forstöðumaður Ársreikningaskrár, í viðtali við blaðið 14. nóvember. Hann kvað slíkan fjölda alveg einstakan og augljóst að ásókn í að gera upp í erlendri mynt væri stóraukin. Í sama blaði kom fram að langflestar af vinsælustu tískuvöruverslununum í miðbæ Reykjavíkur hafa að stórum hluta snúið baki við hefðbundnum auglýsingamiðlum. Í staðinn nýta þær netsamfélög á borð við Myspace og póstlista til að viðhalda sambandi sínu við kúnna og ná í nýja. Þeirra á meðal eru verslanirnar Kron kron, KVK, Glamúr og Nakti apinn. „Myspace hefur virkað miklu betur fyrir okkur en hefðbundnar auglýsingar," sagði Ásgerður Ottesen, stílisti Gyllta kattarins. „Neikvæðar horfur endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins. Sá efnahagssamdráttur sem nú er hafinn mun hjálpa til við að vinda ofan af efnahagslegu ójafnvægi en sú þróun mun líklega tefjast vegna áætlana um hraða aukningu á útgjöldum hins opinbera sem og því að stöðugt hefur mistekist að endurskipuleggja Íbúðalánasjóð. Í tengslum við háa og hækkandi innlenda og alþjóðlega vexti munu þessir þættir auka áhættuna af harðri lendingu íslenska hagkerfisins," sagði matsfyrirtækið Standard & Poor's um neikvæðar horfur á lánshæfismati ríkissjóðs sem kynntar voru 20. nóvember. „Þetta kemur á vondum tíma og ég er mjög hissa á að þeir skuli senda frá sér svona tilkynningu á meðan markaðir eru opnir," sagði Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra. Nokkrum dögum fyrr heimilaði Árni Mathiesen Skiptum, sem keyptu Landssíma Íslands af ríkinu í ágúst 2005, að fresta skráningu félagsins í Kauphöll Íslands fram yfir áramót, líkt og félagið hafði leitað eftir. Fjármögnunarkostnaður bankanna við skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum hafði í nóvember margfaldast. Kostnaðaraukning á seinni hluta ársins var sýnu mest hjá Kaupþingi, en þar voru taldar spila inn í vangaveltur um fjármögnun bankans á kaupunum á NIBC í Hollandi. Fyrir mánaðamót kom fram að eigendur FL Group hefðu unnið að því í lokadaga nóvembermánaðar að finna leiðir til að styrkja rekstur félagsins og hafi átt fundi með fjármálafyrirtækjum vegna þess. Samkvæmt heimildum Markaðarins var að því stefnt að hluthafar leggðu til þess meira fé. Viðbúið var að valdahlutföll röskuðust í félaginu. Úrvalsvísitalan lækkaði um nærri fjórtán prósent í nóvember og hefur aldrei lækkað jafnmikið á einum mánuði. BOX: Stork Food Systems í stuttu máli Í byrjun árs kærðu fjárfestingasjóðirnir Centaurus og Paulson stjórnunarhætti hjá Stork N.V. iðnsamstæðunni hollensku. Þar með hófst niðurlag deilu sjóðanna við stjórn Stork um hvort selja mætti frá samstæðunni starfsemi á borð við Stork Food Systems, en því félagið hafði Marel hér heima fullan hug á að sameinast. Raunar höfðu félagin átt í langvinnu samstarfi. Eftir því sem viðskiptadómstóll í Hollandi og sendimenn hans undu ofan af deilu fjárfestingasjóðanna þegar leið á árið breyttust aðstæður ytra. Fjárfestingasjóðurinn Candover gerði yfirtökutilboð í félagið. LME, eignarhaldsfélag Eyris Invest, Landsbankans og Marels, varðist yfirtökunni og jók við eignarhlut sinn í Stork þar til hann var kominn yfir 43 prósent í haust. Við tóku flóknar samningaviðræður sem enduðu með því að Marel fékk að taka yfir Stork Food Systems og verður með því stærsta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, á dreifðum markaði þar sem mikið samþættingarferli fer í hönd. Um leið og þetta gerðist eignðust Eyrir og Landsbankinn hlut í félaginu London Aquisition sem Candover hafði stofnað utan um yfirtökuna. Verið er að ganga frá lausum endum í viðskiptum þessum öllum, fá uppáskrift samkeppnisyfirvalda og annað slíkt, en búist er við að því verði lokið um miðjan febrúar næstkomandi. Fyrstu þreifingar um kaup Marels á Stork Food Systems hófust í nóvember 2005. Samningar um samrunann náðust svo undir lok nóvember á þessu ári og voru kaupin kynnt á fundi í höfuðstöðvum Marel Food Systems 29. nóvember. 14. desember var hins vegar lagt formlega fram yfirtökutilboð London Aquisition í allt hlutafé Stork N.V. Tilboðið hljóðar upp á 48,4 evrur á hlut og átti Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels Food System, ekki von á öðru en yfirtakan gengi vel. „Um 80 prósent hluthafa eru búin að samþykkja þetta og við sjáum ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þetta klárist," sagði hann í viðtali við Markaðinn. Stork hefur boðað til hluthafafundar 4. janúar til að kynna tilboðið.Desember Í desemberbyrjun varð svo ljóst að ekki yrði farin bráðabirgðaleið í skráningu hlutabréfa í evrum í Kauphöll Íslands. Þess í stað á endanleg lausn með aðkomu Seðlabanka Finnlands að vera tilbúin fyrir mitt næsta ár. Í byrjun desember gengu líka loks í gegn breytingar á eignarhaldi Icebank, en fyrr á árinu var aflétt skorðum sem voru á eignarhaldi hans. Icebank hét áður Sparisjóðabankinn. Tilkynnt var um breytingarnar á eignarhaldinu í október. Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Icebank sagði lengri tíma hafa tekið en við var búist að aflétta ákveðnum fyrirvörum sem settir voru vegna kaupanna. Til að mynda hafi tafist uppáskrift lánardrottna á breyttum samþykktum bankans, en þeir voru með hugann við óróa á fjármálamörkuðum. Kvaðirnar sem aflétt var kváðu áður á um að bankinn skyldi alfarið í eigu sparisjóðanna. Fimmtudaginn sjötta desember lækkaði gengi bréfa FL Group um 15 prósent, en það var fyrsti viðskiptadagur eftir að tilkynnt var um umfangsmikla hlutafjáraukningu og forstjóraskipti. Hannes Smárason hætti sem forstjóri og tók sæti í stjórn félagsins. Við starfinu tók Jón Sigurðsson aðstoðarforstjóri. Í lok viðskiptadags 4. desember var send út tilkynning þar sem kynntar voru breytingar til að styrkja stöðu félagsins. „Við erum að vinna í því að styrkja eiginfjárgrunn FL Group svo við getum tekið á okkur áföll ef þau verða. Við tökum líka þátt í hlutafjáraukningunni til að slá á sögur um að allt sé að brenna hjá FL. Þetta er sterkt félag á alla mælikvarða," sagði Jón Ásgeir Jóhannesson við Fréttablaðið. Boðað er að FL muni fara hægar yfir í fjárfestingum sínum. Hannes Smárason selur ásamt Magnúsi Ármann, Þorsteini M. Jónssyni og Kevin Stanford samanlagt tæp sjö prósenta hlut til Pálma Haraldssonar á genginu 16 en ekki 14,7 eins og Baugur keypti á, að því er fram kemur í umfjöllun Markaðarins um viðskiptin 12. desember. „Þetta var partur af dílnum. Gnúpur selur í FL fyrir um fjóra milljarða til Magnúsar Kristinssonar, eins eiganda Gnúps. Svo virðist sem hluthafar FL Group, sem voru í vandræðum í upphafi, séu að komast á lygnari sjó. Bankamenn eru rólegri fyrir vikið," segir þar. Gengi FL Group hélt áfram að vera brothætt á markaði, en áhugi er engu að síður töluverður á félaginu. Þannig var umframeftirspurn í hlutafjárútboði þess sem lauk 14. desember. Fjárfestar vildu kaupa hlutafé í FL Group fyrir 20,6 milljarða króna og sagði nýi forstjórinn, Jón Sigurðsson, þetta staðfesta trú fjárfesta á breytingum sem kynntar hefðu verið á félaginu. Nýir hlutir voru seldir fyrir um tíu milljarða króna og Baugur Group seldi hlutafé fyrir um fimm milljarða á genginu 14,7. Fjárhagserfiðleikar í óróleika og lausafjárþurrð komu víðar fram. Ellefta desember seldi fjárfestingafélagið Gnúpur bréf í Kaupþingi fyrir að minnsta kosti tuttugu milljarða króna. Gnúpur er í eigu Magnúsar Kristinssonar, Kristins Björnssonar og Þórðar Más Jóhannessonar og hefur verið meðal fimm stærstu hluthafa bankans. Í sömu viðskiptalotu voru tuttugu milljarðar til viðbótar seldir. Hluti af því voru bréf sem Kaupþing átti. Heildarviðskipti með bréf Kaupþings þennan daginn voru yfir fjörutíu milljarðar króna. Um miðjan desember kynnti Landsbankinn fyrirætlanir um að bjóða íbúum á meginlandi Evrópu samskonar innlánsreikninga og bankinn hefur boðið í Bretlandi. „Við þurfum líka evrur, ekki bara pund," sagði Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, en til marks um velgengnina í Bretlandi er að 10 prósent árlegrar viðbótar í innlánum þar runnu inn á reikninga í Icesave. „Engin íslensk vara hefur nokkurn tímann orðið jafn útbreidd meðal almennings á jafnskömmum tíma," sagði Sigurjón og útilokaði ekki að bankinn reyndi síðar að setja reikningana á markað Vestanhafs. Út spurðust starfslok Jóns Karls Ólafssonar um miðjan mánuðinn. Hann lætur 15. janúar næstkomandi af störfum bæði sem forstjóri Icelandair Group og dótturfélagsins Icelandair. Við starfi forstjóra samstæðunnar tekur Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandic Group. Ekki hefur verið ráðinn nýr forstjóri Icelandair. Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair Group, sagði í tilkynningu til Kauphallar 14. desember að umskiptin kæmu í kjölfar skipulagsbreytinga sem ákveðið hafi verið í haust að ráðast í, það er að láta ekki sama manninn gegna starfi forstjóra bæði móður- og dótturfélags Icelandair Group. Ekki er þó svartnættið algjört, þótt sól sé ekki lengi á lofti um þessar mundir. „Vanskil hafa ekki verið lægri sem hlutfall af útlánum á síðustu sjö árum," sagði Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirlitinu í Markaðnum 19. desember og má með góðum vilja lesa úr orðunum jólaljósaglætu. Heildarvanskil við innlánastofnanir sem hlutfall af útlánum nema nú hálfu prósenti. Úr vanskilum fyrirtækja við innlánastofnanir dró um 0,1 prósentustig, milli annars og þriðja fjórðungs, en þau nema nú 0,4 prósentum. Vanskil einstaklinga námu 0,8 prósentum við lok þriðja fjórðungs sem er 0,2 prósentustigum minna en við lok sama fjórðungs í fyrra. Fjármálaeftirlitið vakti þó athygli á að útlánaaukning undanfarinna missera kynni að koma fram í auknum vanskilum síðar. Seðlabanki Íslands ákvað á vaxtaákvörðunarfundi 20. desember að stýrivextir skyldu haldast óbreyttir. Tæpast telst það þó til marks um að slakað hafi verið á klónni, enda hefur vaxtamunur við útlönd aukist með lækkunum stýrivaxta í sumum landanna í kring.
Markaðir Mest lesið „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Viðskipti innlent Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Viðskipti innlent Sektuð fyrir að segjast vera best Neytendur Eldamennskan og jólaljósin algengasti brunavaldur um hátíðirnar Samstarf Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Atvinnulíf Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Viðskipti innlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Fleiri fréttir „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Tómar íbúðir á landinu nú um 10 þúsund Keppinautar eigi ekki að opna bækur sínar hver gagnvart öðrum Segir kaupverðið á Mannlífi ekki hátt Hætta í stjórn vegna yfirvofandi kaupa á Mannlífi Heimkaup undir hatt Samkaupa Leggja nýjan jarðstreng til Súðavíkur Heimildin að ganga frá kaupum á Mannlífi Lykilstjórnendur fá skell vegna tugmilljóna hagnaðar Segir eðlilegar skýringar á hæsta raforkuverðinu Sjá meira