Viðskipti innlent

Funduðu í febrúar

Jürgen Stark
Jürgen Stark

Bankastjórn Seðlabankans ræddi við fulltrúa bankastjórnar evrópska seðlabankans, þegar um miðjan febrúar. Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, bankastjórar Seðlabankans, hittu þá að máli Jürgen Stark, sem situr í bankastjórn evrópska seðlabankans, í húsakynnum Seðlabankans. Stark var þá staddur hér á landi, en hann ávarpaði Viðskiptaþing.

Samkvæmt heimildum blaðsins átti Stark um klukkustundar langan fund með bankastjórunum. Hermt er að viðræðurnar hafi verið áhugaverðar. Seðlabankinn tjáir sig ekki um efni þeirra.

Fram kom í Markaðnum í gær að nú standa viðræður við Seðlabanka Evrópu og hugsanlega fleiri seðlabanka um gjaldeyrisskiptasamninga eða aðrar leiðir til að tryggja aðgengi Seðlabankans að fé. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans sagðist í Markaðnum vonast til þess að tilkynnt yrði um aðgerðir bankans í vikunni. Hugsanlegt er að það verði ekki gert fyrr en á vaxtaákvörðunarfundi 10. apríl.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á ársfundi Seðlabankans á föstudag, að bankinn hefði til skoðunar að ræða við seðlabanka á starfssvæðum íslensku bankanna; þeir starfa á Norðurlöndum, í Bretlandi og á evrusvæðinu. Hann sagði í viðtali við Financial Times í gær að Ísland sé reiðubúið til að beita beinum aðgerðum gegn vogunarsjóðum sem taldir eru standa fyrir árásum á fjármálakerfi landsins. Hann tjáir sig þó ekki um hvers konar aðgerðir yrði um að ræða. - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×