Viðskipti erlent

Stefnir í mikla hækkun vestanhafs

Í einu af útibúum bandaríska bankans Washington Mutual.
Í einu af útibúum bandaríska bankans Washington Mutual. Mynd/AFP
Allt stefnir í mikla hækkun á bandarískum hlutabréfamarkaði við upphafi viðskiptadagsins. Skýringin liggur í mikilli bjartsýni fjárfesta beggja vegna Atlantsála á yfirtöku ríkisins á hálfopinberu fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac. Stemningin hefur snúið við þróuninni á skuldabréfamarkaði síðustu daga en verð þeirra hefur lækkað þar sem fjárfestar sjá nú meiri hagnaðarvon í viðsnúningi á hlutabréfamarkaði en með kaupum á skuldabréfum, líkt og Associated Press-fréttastofan bendir á. Bjartsýni fjárfesta felst ekki síst í því að með yfirtöku ríkisins er reiknað með að vextir fasteignalána geti tekið að lækka og muni það auka einkaneyslu í Bandaríkjunum. Heldur hefur dregið úr hagvexti upp á síðkastið vegna samdráttar í einkaneyslu. Hagkerfið er að stærstum hluta neysluknúið og megi því reikna með að hagvöxtur taki að aukast í kjölfarið. Ekki liggur enn fyrir hvort yfirtakan muni gera mikið gagn fyrir þá fasteignalántaka, sem þegar hafa lent í vanskilum með greiðslur. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur nú hækkað um 2,34 prósent í framvirkum samningum og Nasdaq-vísitalan um rúm þrjú prósent. Þetta er svipuð hækkun og á meginlandi Evrópu í dag. Gengi banka og fjármálafyrirtækja hefur rokið upp beggja vegna Atlantsála í dag. Sem dæmi hafði gengi bréfa í bandaríska bankanum Washington Mutual rokið upp um tæp 20 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×