Viðskipti erlent

Verðbólga í Bretlandi mælist 4,7 prósent

Mervyn King, seðlabankastjóri, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, stinga nefjum saman.
Mervyn King, seðlabankastjóri, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, stinga nefjum saman. Mynd/AFP
Verðbólga mældist 4,7 prósent í Bretlandi í síðasta mánuði, samkvæmt gögnum bresku hagstofunnar sem birt voru í dag. Verðbólgan hefur ekki verið meiri í ellefu ár. Þróun mála bindur aftur hendur Englandsbanka, sem hefur horft til þess að létta á löndum sínum með lækkun stýrivaxta. Stýrivextir í Bretlandi standa í fimm prósentum. Forsvarsmenn breskra fyrirtækja hafa þrýst á breska bankann svo mánuðum skiptir að koma til móts við mikla vaxtabirgði með lækkun vaxta. Seðlabankinn hefur hins vegar bent á, líkt og hér, að horft sé til þess að lækka verðbólgu áður en önnur máli komist á borðið. Taka ber tillit til þess að ellefu ár eru síðan breska hagstofan hóf að halda utan um verðbólgutölurnar með þessum hætti. Verðbólgan nú er litlu yfir væntingum greinenda, að sögn breska ríkisútvarpsins. Þetta er jafnframt fjórði mánuðurinn í röð sem verðbólga fer yfir þriggja prósenta múrinn. Þegar slíkt gerist er Mervyn King, seðlabankastjóri landsins, skyldugur, lögum samkvæmt, til að ganga inn á teppi fjármálaráðherra og gera honum grein fyrir ástæðum þess að ekki hafi tekist að halda verðbólgu niðri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×