Viðskipti erlent

Sæmileg stemning á Wall Street

Bandarískur miðlari á Wall Street eftir fallið í gær.
Bandarískur miðlari á Wall Street eftir fallið í gær. Mynd/AP
Sameiginlegt inngrip seðlabanka víða um heim til að koma í veg fyrir frekari hremmingar á fjármálamörkuðum hafa glatt fjárfesta, ef marka má fyrstu tölur á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Bankarnir dældu 180 milljörðum bandaríkjadala inn á fjármálamarkaði með það fyrir augum að auka lán á millibankamarkaði og koma þannig í veg fyrir að lausafjárþurrðin sem hrjáð hefur markaði upp á síðkastið versni til muna. Þá greip bandaríski seðlabankinn til sértækra aðgerða til að auka fjárflæði á millibankamarkaði, að sögn Associated Press-fréttastofunnar. Skelfing greip um sig á meðal bandarískra fjárfesta í gær þrátt fyrir væntingar um hið gagnstæða eftir að ríkið tók yfir bandaríska tryggingarisann AIG. Óttast þeir að fleiri fjármálafyrirtæki standi naumt og geti farið í þrot vegna lausafjárþurrðar. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um 1,23 prósent í byrjun dags og Nasdaq-vísitalan um 1,4 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×