Viðskipti erlent

Undirmálslánakreppan aðeins toppurinn á ísjakanum

Ekki hefur selst minna af fasteignum í Bandaríkjunum síðan 1998.
Ekki hefur selst minna af fasteignum í Bandaríkjunum síðan 1998. Markaðurinn/AFP

Samkvæmt skýrslu samtakanna Hope Now, sem aðstoða bandaríska húsnæðiseigendur sem eiga í vandræðum með afborganir, lenda Bandaríkjamenn með góð veð og „hefðbundin" húsnæðislán í vaxandi mæli í vandræðum með afborganir. Á öðrum ársfjórðungi aðstoðuðu samtökin 34.000 fleiri með „hefðbundin" húsnæðislán en „undirmálslán", en alls aðstoðuðu samtökin nærri 1.800.000 manns á öðrum ársfjórðungi.

Þá sýna tölur samtakanna að skjólstæðingar, sem höfðu hefðbundin húsnæðislán, mistókst hlutfallslega oftar en þeim sem höfðu undirmálslán að ná tökum á afborgunum, þrátt fyrir skuldbreytingu, og misstu þar með heimili sín.

Hingað til hefur verið talið að húsnæðisvandræðin vestanhafs væru fyrst og fremst bundin við svokölluð undirmálslán, en nú telja sérfræðingar hins vegar að merki séu um að hefðbundin lán sem talin voru örugg kunni einnig að tapast í stórum stíl. Þetta er mikið áhyggjuefni því greiningardeildir telja að botninum hafi verið náð í undirmálslánum. Skuldavafningar og verðbréfuð undirmálslán eru nú talin nánast verðlaus, en fjármálastofnanir hafa þurft að afskrifa þessi bréf um allt að 80 prósent. Vonir voru því bundnar við að farið væri að sjá fyrir endann á útlánatöpum fjármálastofnana. Þær vonir munu þó ekki rætast ef afskrifa þarf hefðbundin húsnæðislán í stórum stíl.

Vaxandi áhyggjur eru nú í Bandaríkjunum um að húsnæðiseigendur sem horfa á fallandi húsnæðisverð og þunga greiðslubyrði lána sem tekin voru þegar húsnæðisverð var í hámarki kjósi í stórum stíl að ganga frá eignum sínu frekar en að borga af lánunum. Þetta þýðir bæði að bankar og fjármálastofnanir sitja uppi með tap á lánum, því veðin hafa fallið í verði, og að offramboð myndast af eignum á markaði.

Í síðustu viku greindu samtök bandarískra fasteignalánveitenda frá því að þrátt fyrir að vextir á húsnæðislánum í Bandaríkjunum hafi lækkað að undanförnu hafa ekki færri sótt um fasteignalán síðan í desember 2000. Talið er að kaupendur haldi að sér höndum í von um að fasteignaverð eigi enn eftir að lækka. Greiningardeild Lehman Brothers sagði fyrir helgi að markaðurinn væri að ganga í gegn um „sársaukafulla leiðréttingu".

D.R. Horton, sem er stærsta verktakafyrirtæki Bandaríkjanna sem sérhæfir sig í byggingu íbúðarhúsnæðis tilkynnti á þriðjudag að sala á nýjum íbúðum hefði dregist saman um 36 prósent. Tap félagsins var þriðjungi meira en greiningardeildir höfðu gert ráð fyrir, en taprekstur hefur verið á félaginu síðustu fimm ársfjórðunga.

Eftirspurn efir húsnæði er mjög lítil í Bandaríkjunum, en þann 24. síðasta mánaðar tilkynntu samtök bandarískra fasteignasala að fjöldi viðskipta hefði ekki verið minni í tíu ár. Á sama tíma hefur flætt inn á markaðinn húsnæði sem bankar og lánastofnanir hafa leyst til sín, bæði vegna þess að fólk hafi ekki efni á afborgunum eða hafi hreinlega gengið frá skuldum sínum og eignum. Áætlað er að einn af hverjum 171 fasteignaeiganda sé á leið í nauðungaruppboð, og 6,35 prósent allra húsnæðislána séu í vanskilum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×