Viðskipti innlent

Sparisjóðir í vandræðum vegna gengisfalls Existu

Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM), segir að fall Existu hafi átt mikinn þátt í erfiðleikum SPM.
Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM), segir að fall Existu hafi átt mikinn þátt í erfiðleikum SPM. Markaðurinn/Pjetur

„Miðað við stöðu Sparisjóðs Mýrasýslu um áramót í samanburði við aðra sparisjóði má ætla að fleiri sparisjóðir lendi í vandræðum á næstunni," segir Sveinn Þórarinsson, hjá greiningu Glitnis.

Sparisjóður Mýrasýslu (SPM) á hlut í Existu í gegnum eignarhaldsfélagið Kistu sem er í eigu fjögurra sparisjóða (sjá töflu). SPM á um 10,4 prósenta hlut í Kistu sem á um 7,17 prósent í Existu. Hlutur Kistu var metinn á um 40 milljarða fyrir ári en er nú metinn á um 6,7 milljarða. Exista hefur lækkað um rúmlega 80 prósent á tímabilinu.

Nýverið bárust fréttir af því að stjórn Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) hyggst auka stofnfé sjóðsins um 2 milljarða króna. Ef það verður samþykkt á fundi stofnfjáreigenda 15. ágúst næstkomandi mun Kaupþing fara með 70 prósenta hlut í bankanum, Borgarbyggð 20 prósent og aðrir 10 prósent.

Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri SPM, segir að ein meginorsökin fyrir erfiðleikum hafi verið að SPM hafi átt stóran hlut í Existu. „Gengisfall á mörkuðum hafði því gríðarleg áhrif," segir hann. Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri SPM, vonast til þess að þetta muni tryggja áframhaldandi rekstur. „Kaupþing hefur gefið það út að rekstur bankans verði óbreyttur í bili," segir Gísli.

Sveinn Þórarinsson telur horfurnar ekki góðar. „Staðan verður mjög erfið fyrir marga sparisjóði í ljósi þess hvað hlutabréfaeign hefur vegið þungt í hagnaði þeirra," segir hann og bendir á að jafnvel séu dæmi um að grunnrekstur sparisjóðanna skili ekki arði. „Það er ekki ólíklegt að það séu frekari sameiningar fram undan þar sem minni sparisjóðir bera ekki þetta mikla gengisfall á hlutabréfum."

Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, segir engar samrunaviðræður í gangi þrátt fyrir gengisfall Existu. „Eiginfjárstaða okkar er það góð að við þolum gengisfall á hlutabréfum okkar í Existu," segir hann. „Það er ekki samruni í dag og ekki á morgun," segir Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, en það eru vissulega alltaf einhverjar hreyfingar og ekkert óeðlilegt að menn tali saman við núverandi efnahagsaðstæður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×