Fótbolti

Podolski fer fram á sölu frá Bayern

Podolski
Podolski NordicPhotos/GettyImages

Þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski hefur farið fram á að verða seldur frá Bayern Munchen í janúar.

Þessi 23 ára framherji hefur staðið sig með prýði með þýska landsliðinu síðustu tvö ár, en allt annað hefur verið uppi á teningnum hjá honum með félagsliðinu.

Þar hefur hann verið fastur á bekknum fyrir aftan menn eins og Luca Toni og Miroslav Klose og þá fékk liðið bandaríska framherjann Landon Donovan að láni á dögunum.

Podolski hefur nú fengið nóg ef marka má ummæli hans í þýska blaðinu Bild í dag.

"Ég er búinn að ákveða að mig langar að fara frá Bayern í vetur og hef þegar sagt stjórninni frá því," sagði Podolski.

Talið er að þessi tíðindi muni vekja áhuga nokkurra liða í ensku úrvalsdeildinni, en Podolski hefur m.a. verið orðaður við Tottenham og Manchester City.

Þá er talið víst að gamla félagið hans Köln muni hafa áhuga á að fá hann aftur í sínar raðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×