Viðskipti erlent

Fjárfestar meta hræringar í fjármálaheiminum

Verðbréfamiðlarar að störfum í umrótinu á fjármálamörkuðum.
Verðbréfamiðlarar að störfum í umrótinu á fjármálamörkuðum. Mynd/AFP
Nokkur óvissa ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í dag eftir mikið rót víða um heim. Breska ríkisútvarpið segir fjárfesta vera nú um stundir að meta áhrifin af mikilli uppstokkun í bandarískum fjármálageira í vikunni og innspýtingar seðlabanka beggja vegna Atlantsála í fjármálakerfið. Helstu hlutabréfavísitölur vestanhafs féllu verulega í vikubyrjun eftir að stjórnendur Lehman Brothers fóru fram á greiðslustöðvun, bandaríska ríkið hafi tekið yfir tryggingarisann AIG til að forða honum frá gjaldþroti ásamt fleiri aðgerðum. Þá var tilkynnt í dag að breska fjármálafyrirtækið Lloyds og breski bankinn HBOS eigi í samrunaviðræðum. FTSE-vísitalan hefur hækkað um 1,46 prósent í dag, Dax-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 0,82 prósent og CAC-40 vísitalan í Frakklandi hækkað um 0,57 prósent. Vísitölurnar féllu í gær. Úrvalsvísitalan er óbreytt frá í gær og stendur nú í 3.851 stigi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×