Viðskipti innlent

Á ennþá 15 prósent

Finnur Ingólfsson
Finnur Ingólfsson
Finnur Ingólfsson er enn stór hluthafi í Icelandair Group í gegnum félagið Langflug. Fréttir af sölu Finns á hlutum í félaginu í fyrrasumar, báru með sér að þá hefði Finnur sagt skilið við félagið. Þá seldi félag Finns FS7 tæplega 15,5 prósenta hlut sinn.

Finnur staðfestir að hann eigi nú tvo þriðju hluta hlutafjár í Langflugi, á móti Fjárfestingafélaginu Gift, sem á þriðjung. Langflug er stærsti hluthafinn í Icelandair Group, með 23,8 prósenta hlut.

Samkvæmt ársreikningi Langflugs fyrir árið 2006 átti Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, forveri Giftar, 75 prósenta hlut, en Finnur fjórðung prósenta. „Þetta var einhvern tímann á síðasta ári," segir Finnur, þegar hann er spurður um hvenær hann jók hlut sinn í Langflugi.

Í lok desember sátu þrír menn í stjórn Langflugs. Finnur Ingólfsson, Helgi S. Guðmundsson og Ólafur Friðriksson. Finnur er nú stjórnarformaður Samvinnusjóðsins, sem líklega á þriðjungs hlut í Gift, og verður stærsti hluthafinn í Gift. Ólafur Friðriksson er fyrrverandi stjórnarformaður Giftar. Allir þrír hafa setið í svonefndu Fulltrúaráði eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga. Fulltrúaráðið velur sig sjálft en þar eru innan borðs ýmsir sem meðal annars tengjast Kaupfélögunum og Sambandi íslenskra samvinnufélaga. - ikh





Fleiri fréttir

Sjá meira


×