Fótbolti

Kjartan skoraði fyrir Sandefjord

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Kjartan Henry Finnbogason í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Kjartan Henry Finnbogason skoraði fyrra mark Sandefjord í 2-0 sigri á KIL í norsku B-deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.

Þetta var fyrsta mark hans með félaginu en hann hefur verið í byrjunarliði Sandefjord í fimm af síðustu sex leikjum þess í deildinni. Sandefjord er í tíunda sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir tíu leiki.

Á laugardaginn var svo Íslendingaslagur í deildinni er Bryne og Start mættust. Síðarnefnda liðið vann 1-0 sigur en Allan Borgvardt, fyrrum leikmaður FH og leikmaður Bryne, misnotaði vítaspyrnu á 89. mínútu leiksins.

Baldur Sigurðsson kom inn á sem varamaður í liði Bryne á 64. mínútu og Jóhannes Þór Harðarson á 80. mínútu hjá Start.

Start er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Odd Grenland en er þó með sex stiga forskot á Notodden sem er í þriðja æsti deildarinnar. Bryne er í fimmta sæti deildarinnar með sextán stig.

Þrjú efstu liðin komast upp í norsku úrvalsdeildina að þessu sinni þar sem liðum deildarinnar verður fjölgað úr fjórtán í sextán á næsta keppnistímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×