Löndin sem gera tilkall til Norðurskautsins ætla að hætta að karpa um málið og gera út um það á grundvelli Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Íslensk stjórnvöld hafa kvartað undan því að vera skilin útundan í viðræðunum.
Það vakti litla hrifningu ríkjanna í kringum Norðurskautið þegar Rússar plöntuðu fána sínum á hafsbotninn á sjálfum pólnum.
Gífurleg auðæfi kunna að finnast á hafsbotninum, sem nú er undir ís, og fimm ríki gera tilkall til þeirra.
Ríkin fimm sem liggja að Norðurskautinu funduðu um málið á Grænlandi í vikunni.
Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Bandaríkin drógu sig þannig út úr samstarfinu á vegum Norðurskautsráðsins, þar sem einnig sitja Ísland, Svíþjóð og Finnland.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kvartaði yfir þessu við Dani, sem buðu til fundarins á Grænlandi.
Fyrirhugað var að Ingibjörg Sólrún og Rice ræddu málið í gær en til þess gafst ekki tími.
En á fundinum á Grænlandi ákváðu ríkin fimm að útkljá allar deilur um yfirráð á grundvelli Hafréttarsáttmálans - og Bandaríkjamenn ætla að biða þing sitt að staðfesta sáttmálann hið fyrsta.