Viðskipti innlent

Fjalla um fallið áður en yfir fennir

Í mars er stefnt að því að út komi bók um bankahrunið. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifar. Markaðurinn/Anton
Í mars er stefnt að því að út komi bók um bankahrunið. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifar. Markaðurinn/Anton
„Þetta verður stutt en snörp bók um mestu efnahagsumbrot í sögu lýðveldisins,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, en hann vinnur nú að bók um sögu bankahrunsins. „Það hefur verið gríðarleg umræða um hrun bankanna í fjölmiðlum, og það hefur verið mjög erfitt fyrir fólk að fylgjast með hvað er að gerast og hafa yfirsýn yfir umræðuna og atburðarásina,“ segir Guðni.

Guðni segist ekki ætla að setja fram neina eina skýringu á hruninu, en leggja í staðinn áherslu á að veita yfirsýn yfir allar þær kenningar sem fram hafa komið. „Það er full þörf á bók sem þessari, þar sem veitt er yfirsýn yfir viðbrögð, skýringar og skoðanir allra þeirra sem komið hafa að þessari atburðarás. Slík yfirsýn og samantekt er mjög mikilvæg fyrir umræðuna, því það fennir fljótt í öll spor í þeim byl sem þjóðin er nú stödd í.“

Til stóð að Ólafur Ísleifsson yrði meðhöfundur bókarinnar, en úr því verður ekki því hann hefur nú tekið sæti í bankaráði hins endurreista Glitnis.

Bókin er væntanleg með vormánuðum, en útgefandi hennar er JPV bókaforlag. - msh





Fleiri fréttir

Sjá meira


×