"Þetta er skemmtilegt fyrir okkur og leiðinlegt fyrir hann, en hann er að lenda í betra liði hérna hjá okkur," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur um Hörð Axel Vilhjálmsson sem spila mun með liðinu í vetur.
Eins og fram hefur komið gekk Hörður í raðir Keflvíkinga frá Njarðvík í sumar en var svo boðinn samningur hjá sterku liði á Spáni.
Hann var svo rekinn frá spænska liðinu og mun því spila með Keflvíkingum í sumar eins og upphaflega stóð til. Hörður stóð frammi fyrir því að vera varaskeifa á Spáni en horfir nú fram á að hafa nóg að gera með Íslandsmeisturunum í vetur.
"Þetta þýðir líklega að við munum bara fá okkur einn útlending í viðbót í stað tveggja. Það er bara skemmtilegra og þetta styrkir hópinn okkar tvímælalaust," sagði Sigurður, sem mun keyra nokkuð á ungum mönnum í vetur.
Hann fagnar því að sterkir íslenskir leikmenn séu á leið í heimahagana á ný eftir að hafa spilað erlendis.
"Það má segja að þetta sé í takt við það sem er að gerast í deildinni núna. Það eru sterkir strákar að koma heim aftur og spila og deildin er að verða enn sterkari og skemmtilegri fyrir vikið," sagði Sigurður í samtali við Vísi.
Hann segir ljóst að titilvörn Keflvíkinga eigi eftir að verða erfitt verkefni.
"Mér finnst mörg lið bara að verða mjög sterk strax núna og þau eiga eftir að verða enn sterkari þegar líður á veturinn. Það er ljóst að við eigum eftir að þurfa að hafa fyrir þessu," sagði Sigurður glettinn.