Viðskipti innlent

Bankahólfið: Netbóluísinn brotinn

Úrvalsvísitalan sleikti 4.500 stiga markið í gær. Eins og marg­oft hefur verið tuggið á fór vísitalan hæst í 9.016 stig 18. júlí í fyrra áður en hún fór að síga en fall vísitölunnar nú nemur 49,6 prósentum á tæpum ellefu mánuðum. Fyrir þá sem áhuga hafa á vísitölum lækkaði hún um 47 prósent frá hæsta gildi í febrúar árið 2000 þegar netbólan sprakk. Ljóst er að niðursveiflan er dýpri og snarpari nú en þá. Botni netbólunnar var náð í september árið 2001 en þá endaði hún í 989 stigum. Miðað við þetta ætti núverandi niðursveiflu að ljúka um næstu jól. Sú kenning verður þó ekki seld dýrari en hún var keypt. Það er hins vegar spurning hvar úrvalsvísitalan stendur þegar yfir lýkur. Helgi stýrir Iceland Travel

Iceland Travel, dótturfyrirtæki Icelandair Group, hefur ráðið Helga Eysteinsson sem framkvæmdastjóra. Ráðning Helga er sögð liður í að efla ferðaþjónustustarfsemi innan félagsins með aukinni áherslu á fríferðir Íslendinga. Jóhann Kristjánsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Iceland Travel, hefur jafnframt látið af störfum.

Helgi er kunnugur innan ferða- og fluggeirans, en hann hefur bæði unnið hjá Ferðaskrifstofu Íslands og Flugleiðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×