Fótbolti

Keisarinn biðlar til Mourinho

Keisarinn er klár í Mourinho
Keisarinn er klár í Mourinho NordicPhotos/GettyImages

"Keisarinn" Franz Beckenbauer, forseti Bayern Munchen, segist muni taka Jose Mourinho opnum örmum hjá félaginu þegar Ottmar Hitzfeld hættir þjálfun í sumar.

Bayern er talið einn fárra liða sem gætu komið til greina hjá Jose Mourinho, sem hefur í fórum sínum stórkostlega ferilskrá frá tíð sinni með Porto og Chelsea. Mourinho talar reyndar ekki þýsku og það þykir fyrirstaða - en ekki að mati Keisarans sem telur tungumálið ekki fyrirstöðu þegar góður maður er annars vegar.

"Mourinho? Því ekki það? Hann myndi hafa allt sumarið til að fara í málaskóla," skrifaði Beckenbauer í dálki sínum í þýska dagblaðinu Bild.

"Félagið okkar þarf stórt nafn í stjórastólinn. Mann sem er með reynslu, þekkingu og skilning á þýskri tungu."

Svo skemmtilega vill til að Beckenbauer sjálfur er einmitt maður með slíka ferilskrá eftir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna sem leikmaður og þjálfari með landsliðum og félagsliðum á glæsilegum ferli. Hinn 62 ára gamli höfðingi hefur þó ekki í hyggju að bjóða sig fram í starfið.

"Eini maðurinn sem ég get útilokað í starfið er ég sjálfur. Við Karl-Heinz Rummenigge og Uli Hoeness munum teikna upp lista líklegra manna og stjórnin mun greiða atkvæði um þá," sagði Keisarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×