Viðskipti erlent

Bandaríkin féllu

Mynd/AP

Talsvert fall varð á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag en fjárfestar urðu mjög uggandi um að samdráttarskeið sé í þann mund að renna upp.

Rót óttans lá í miklu tapi bandaríska bankans Citigroup sem skilaði 9,83 milljarða dala, jafnvirði rúmra 631 milljarða íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, sem að langmestu leyti er tilkomið vegna afskrifta á bandarískum undirmálslánum og skuldabréfavafningum þeim tengdum.

Þá drógu fjárfestar sömuleiðis að sér hendur eftir að bandaríska viðskiptaráðuneytið birti upplýsingar þess efnis að einkaneysla muni að öllum líkindum dragast saman á árinu. Einkaneysla er tæplega sjötíu prósent af hagvaxtartölum í Bandaríkjunum og því líkur á að draga muni úr hagvexti þegar neytendur draga úr neyslu.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 2,17 prósent og Nasdaq-vísitalan um 2,45 prósent. Til samanburðar féll FTSE-vísitalan í Bretlandi um rétt rúm þrjú prósent í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×