Viðskipti erlent

Fall í Asíu en rólegt í Evrópu

Verðbréfamiðlari í Pakistan en helstu hlutabréfavísitölur féllu mikið í Asíu í morgun.
Verðbréfamiðlari í Pakistan en helstu hlutabréfavísitölur féllu mikið í Asíu í morgun. Mynd/AFP

Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu eru beggja vegna núllsins í dag þrátt fyrir mikið gengisfall í Asíu í morgun.

Mikil lækkun varð strax við upphaf viðskiptadagsins á helstu hlutabréfamörkuðum í Asíu í nótt en Nikkei-vísitalan ýtti við spilaborginni með falli upp á rúm 4,5 prósent. Þrátt fyrir örlítinn viðsnúning innan dags endaði hún í rúmum 5,6 prósenta falli. Svipaða sögu var að segja af hlutabréfamörkuðum í öðrum Asíulöndum en viðskipti voru stöðvuð með hlutabréfa í kauphöllinni í Suður-Kóreu þegar vísitalan féll um meira en 10 prósent.

Helsta ástæðan fyrir fallinu á mörkuðunum er ótti fjárfesta við að samdráttur í Bandaríkjunum muni koma niður á útflutningi frá Asíu. Muni skattalegar aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum litlu skipta til að bæta ástandið, að sögn sérfræðinga í samtali við breska ríkisútvarpið.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur þvert á aðra þróun hækkað um 0,6 prósent, en vísitölur í Þýskalandi og Frakklandi hafa lækkað um 1,6 og 0,16 prósent.

Þá hefur lækkun verið sömuleiðis á Norðurlöndunum upp á hálft til eitt prósent að meðaltali. Öðru máli gegnir hins vegar um Noreg en vísitalan þar í landi hefur hækkað um 0,09 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×