Fótbolti

Eitursvalur Ribery tryggði Bayern ótrúlegan sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ribery fagnar marki sínu í kvöld.
Ribery fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Það var nágrannaslagur af bestu gerð í fjórðungsúrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld er Bayern München tók á móti 1860 München.

1860 leikur í þýsku 2. deildinni og fékk því sjaldgæft tækifæri til að vinna stóra bróðir í München.

Staðan var markalaus að loknum venjulegum leiktíma og því framlengt. Allt útlit var fyrir að vítaspyrnukeppni þyrfti til að knýja fram úrslit en þegar hálf mínúta var til leiksloka dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu á 1860.

Brotið var á Miroslav Klose en endursýning í sjónvarpinu sýndi að brotið var á honum utan teigs.

Frakkinn Franck Ribery tók vítið og skoraði og byrjaði eðlilega að fagna. Dómarinn flautaði og dæmdi að endurtaka skyldi spyrnuna þar sem leikmaður Bayern hljóp inn í teiginn áður en Ribery tók spyrnuna.

Ribery fór því öðru sinni á vítapunktinn. Hann lét stressið ekki á sig fá og vippaði á mitt markið en markvörður 1860 fór í annað hornið. Þar með tryggði hann Bayern sigur og sæti í undanúrslitum keppninnar.

Þrjú rauð spjöld litu dagsins ljós í leiknum. Luca Toni, leikmaður Bayern, fékk sitt síðara gula spjald á 84. mínútu leiksins en tveir leikmenn 1860, Schwarz og Thorandt, fengu rautt í framlengingunni.

Fyrr í kvöld vann Wolfsburg sigur á Hamburger SV, 2-1, í framlengdum leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×