Fótbolti

Við erum ekki hræddir - Við erum Bayern Munchen

Bastian Schweinsteiger
Bastian Schweinsteiger AFP

Fyrir nákvæmlega fimm árum síðan sló smálið í þýsku utandeildinni í gegn þegar það sló úrvalsdeildarlið Leverkusen út í bikarkeppninni.

Smáliðið sem um ræðir hefur nú heldur betur skotið upp kollinum á ný, en þetta eru nýliðar Hoffenheim sem hafa verið á toppi úrvalsdeildarinnar í allt haust.

Liðið kemur frá smábænum Sinsheim sem telur ekki nema 35 þúsund íbúa en það hefur verið knúið áfram af hinum moldríka Dietmar Hoff síðan árið 1990 þegar það var í áttundu efstu deild í Þýskalandi.

Á föstudagskvöldið mætir Hoffenheim á Allianz Arena í Munchen þar sem það mun mæta stórliði Bayern Munchen fyrir framan 69,000 áhorfendur. Takist smáliðinu að vinna, er tryggt að það verður vetrarmeistari skömmu áður en það flytur inn á nýjan 30,000 manna heimavöll.

"Allt Þýskaland bíður spennt eftir þessum leik, ég vona bara að við getum unnið hann," sagði franski landsliðsmaðurinn Franck Ribery hjá Bayern.

Lið Bayern hefur líka gengið vel á leiktíðinni eftir smá hiksta í byrjun og er taplaust í síðustu 13 leikjum í öllum keppnum.

"Ef Hoffenheim vinnur þennan leik, mun allt Þýskaland hlæja," sagði þýski landsliðsmaðurinn Bastian Schweinsteiger. "En við erum ekki hræddir. Við erum Bayern Munchen."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×