Viðskipti erlent

Fjármögnun Lehman Brothers rann út í sandinn

Dick Fuld, forstjóri Lehman Brothers, ræðir málin ásamt fleirum.
Dick Fuld, forstjóri Lehman Brothers, ræðir málin ásamt fleirum. Mynd/AFP

Bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers átti í leynilegum viðræðum við asíska fjárfesta um kaup á helmingi hlutabréfa í bankanum í byrjun mánaðar. Ekki liggur fyrir hvaðan fjárfestarnir eru en þeir eru taldir frá Suður-Kóreu eða Kína. Viðræðurnar runnu út í sandinn, að sögn breska viðskiptadagblaðsins Financial Times.

Til stendur að selja fleiri eignir bankans.

Blaðið segir Dick Fuld, forstjóra bankans, undir miklum þrýstingi að ná inn nýju hlutafé til að fegra bókhaldið fyrir þriðja ársfjórðungs. Sérfræðingar telja líkur á að bankinn muni þá afskrifa allt að fjóra milljarða dala, jafnvirði 329 milljarða íslenskra króna. Gangi það eftir nema heildarafskriftir Lehmans tólf milljörðum dala.

Gengi hlutabréfa í bankanum hefur hríðlækkað í óróleikanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá síðasta hausti og það hrapað um tæp 85 prósent. Markaðsvirði bankans nemur nú um 9,5 milljörðum dala, jafnvirði 781 milljarði íslenskra króna.

Lengi hefur verið ýjað að því að Lehman Brothers glími við alvarlegan lausafjárskort og hljóti sömu örlög og fjárfestingarbankinn Bear Stearns, sem JP Morgan og bandaríski seðlabankinn forðuðu frá gjaldþroti í mars. Dick Fuld, forstjóri, hefur hins vegar þráfaldlega neitað að bankinn eigi í vandræðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×