Viðskipti erlent

Hlutabréf Lehman enn í frjálsu falli

Höfuðstöðvar Lehman Brothers í New York.
Höfuðstöðvar Lehman Brothers í New York. Mynd/AP
Hlutabréf í Lehman Brothers, fjórða stærsta fjárfestingarbanka bandaríkjanna, hafa verið í frjálsu falli í viðskiptum fyrir opnun markaða í Bandaríkjunum. Bréf félagsins féllu um 40 prósent fyrir opnun. Undanfarna daga hafa bréf í Lehman fallið mikið eftir að ljóst varð að viðræður stjórnenda fyrirtækisins við Þróunarbanka Kóreu um kaup á hlut í við Lehman hefðu siglt í strand. Lehman hefur fallið um nærri 57 prósent síðan á mánudag, en síðan síðasta sumar hafa um 90 prósent markaðsvirðis Lehman þurrkast út. Undanfarnar vikur hefur þrálátur orðrómur verið á kreiki um að Lehman rambi á barmi gjaldþrots, og verðfall síðustu daga bendir eindregið til þess að markaðir telji líkur á gjaldþroti hafa snaraukist. Þá hefur skuldtryggingarálag Leham rokið upp, úr um 250-300 í sumar í um 550 í gær. Í gær sendi bankinn frá sér afkomuviðvörun vegna þriðja ársfjórðungs, en samkvæmt henni tapaði bankinn 3,9 milljörðum dollara á fjórðungnum, sem er versta afkoma í 158 ára sögu fyrirtækisins. Tap Lehman var mun meira en greiningardeildir höfðu gert ráð fyrir, en búist var við 2,2 milljarða dollara tapi. Lehman var mjög áberandi í viðskiptum með fasteignatryggð skuldabréf og skuldvafninga sem byggðust á ýmsum gerðum jaðar- og undirmálslána. Bent hefur verið á að hærra hlutfall eiginfjár Lehman sé bundið í slíkum bréfum, sem nú eru nánast óseljanleg og verðlaus, en nokkurs annars fjárfestingarbanka, að Merrill Lynch undanskildum. Eina von bankans er nú að selja eignastýringarsvið sitt, en greiningardeildir telja það eina hluta bankans sem hefur nokkuð verðmæti. Samkvæmt áætlunum er verðmæti eignastýringarsviðsins sé jafn mikið, eða meira, en alls bankans samanlagt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×