Viðskipti innlent

Verklagsreglum ýtt til hliðar eftir hryðjuverk

Hreinn Loftsson
Hreinn Loftsson

Áhugaleysi virtra erlendra fjármálafyrirtækja á fjárfestingum á Íslandi í einkavæðingarferli bankanna kemur ekki á óvart að mati Kaarlos Jännäris, finnska bankasérfræðingsins sem í byrjun vikunnar kynnti skýrslu um íslenskt fjármálaeftirlit.

Í kafla um bakgrunn bankakrísunnar fjallar Jännäri um einkavæðingu bankanna. Hann segir bagalegt fordæmi hafa verið búið til þegar Samson, fjárfestingarfélagi Björgólfsfeðga, hafi verið heimilað að kaupa 45 prósenta hlut í Landsbankanum og þar með horfið frá fyrirætlunum um dreifða eignaraðild. „Ákvörðunin var mestanpart pólitísk. Sem dæmi var Fjármálaeftirlitið ósátt við niðurstöðuna og veitti ekki samþykki sitt, snemma árs 2003, fyrr en eftir langa yfirlegu. Sama átti við um kaup „S-hópsins" á Búnaðarbankanum," segir í skýrslu Jännäris.

Í skýrslunni segir Jännäri smæð landsins, sveiflukennt og lokað hagkerfi með krónuna sem gjaldmiðil hafa fælt erlenda banka frá. „Engu að síður virðist sem að minnsta kosti einn virtur banki hafi sýnt íslenska markaðinum áhuga, en verið hafnað, líklega vegna verndarsjónarmiða," segir í skýrslunni.

Hreinn Loftsson, sem var formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu 1992 til 2002 kannast ekki við að erlendum banka hafi verið hafnað í einkavæðingarferlinu. „Vera má að þarna sé blandað saman atburðum sem áttu sér stað 1998 þegar Enskilda bankinn sænski vildi fá að kaupa Landsbankann," segir hann. Þegar viðræðum við Enskilda og Íslandsbanka um kaup á Landsbankanum var slitið í ágústlok 1998 sagði Finnur Ingólfsson, þá viðskiptaráðherra, að „ekki væri rétti tíminn til að selja" og kynnti nýja stefnumótun um sölu bankanna.

Hreinn Loftsson segir að eftir að nefndinni hafi verið falin umsjón með sölu bankanna hafi HSBC verið falið að veita henni ráðgjöf um framkvæmdina. Síðsumars 2001 hófst síðan hinn eiginlegi söluferill, en árásirnar á tvíburaturnana í New York í Bandaríkjunum 11. september það ár hafi sett strik í reikninginn. „Við það dó allur áhugi erlendis, en HSBC hafði unnið að því að finna samstarfsaðila sem hefði reynslu, kunnáttu og getu til þess að stýra stærstu bönkum landsins. Eftir því sem leið fram á haustið og fram í desember urðu menn úrkula vonar um að flötur væri á því að fá hér inn erlenda aðila," segir Hreinn.

Viðræður hafi átt sér stað við að minnsta kosti tvo banka, en þegar á hólminn var komið reyndist ekki áhugi fyrir hendi. Rétta leiðin segir hann að hefði verið að fresta fyrirætlunum um sölu um eitt til þrjú ár þar til markaðir næðu sér á strik aftur. Í staðinn hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um að ganga til viðræðna við Samson um kaup á ráðandi hlut í Landsbankanum.

„Áhugi sænska bankans 1998 tel ég hins vegar að hafi orðið til þess að farið var í formlegt ferli þar sem leitað var að aðilum sem áhuga hefðu og þeim gefinn kostur á að senda inn tilboð, en þó ekki í allan bankann því gefa átti almenningi færi á að eiga hlut. Menn vildu vanda sig við þetta og gæta þess að fá ekki á sig ákúrur um að hafa afhent einhverri sænskri auðfjölskyldu einn helsta banka landsins á silfurfati."

Hreinn segir sama eiga við um Samson og S-hópinn að hvorugur hafi í raun uppfyllt þau skilyrði sem gera hafi átt til kjölfestufjárfestis í íslensku bönkunum. „S-hópurinn með fyrrverandi viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra frá því skömmu áður innan­borðs uppfyllti vitanlega ekki skilyrði sem gerð eru til kaupenda banka og það gerði Samson ekki heldur, sem var ekki með nokkra reynslu af bankarekstri. En þarna fór allt ævintýrið af stað, eftir að horfið var frá ákvörðun framkvæmdanefndarinnar um að fresta sölu bankanna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×