Bandaríkjamaðurinn Chris Arreola er enn taplaus til þessa á atvinnumannaferli sínum í hnefaleikum en flestir búast við því að hann muni tapa sínum fyrsta bardaga um helgina.
Þá mætir hann Úkraínumanninum þungavigtarmeistaranum Vitali Klitschko í hringnum þar sem WBC-þungabeltið er í húfi.
Hinn 28 ára gamli Arreola er tíu árum yngri en Klitschko og hefur unnið alla 27 bardaga sína til þessa, þar af 24 bardaga með rothöggi, en Klitschko er í raun fyrsta stóra prófið hans á ferlinum. Honum finnst hann samt eiga skilið meiri virðingu fyrir bardagannn en raun ber vitni um.
„Það fer gríðarlega í taugarnar á mér að það virðist enginn reikna með því að ég geti gert neitt gegn Vitali og ég þoli ekki að fólk virðist ekki taka mig alvarlega. Ég er ekkert að leika mér í þessu og ætla að vinna bardagann. Þetta verður sýning og þungavigtarhnefaleikar munu komast aftur á kortið með þessum bardaga," segir Arreola.