Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests stuðnings í Suðurkjördæmi þrátt fyrir að tapa miklu fylgi miðað við þingkosningarnar 2007. Samfylkingin kemur rétt á eftir Sjálfstæðisflokknum og munar hálfu prósentustigi á stuðningi almennings við flokkanna. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent-Gallup fyrir Ríkisútvarpið.
Sjálfstæðisflokkurinn fær stuðning 27,7% aðspurðra og Samfylkingin 27,2%. Sjálfstæðisflokkurinn tapar rúmum 8% frá kosningunum 2007 og einum kjördæmakjörnum þingmanni. Samfylkingin bætir lítillega við sig en þingmönnum flokksins í kjördæminu fjölgar um einn samkvæmt könnunni.
Vinstri græn bæta langmestu við fylgi sitt, flokkurinn fékk rúm 10% í kosningunum fyrir tveimur árum en fær nú stuðning 23,7%. Flokkurinn fengi tvo menn kjörna í stað eins.
Framsóknarflokkurinn tapar 4,4% fylgi og mælist með nú 14,3%. Samkvæmt því tapar flokkurinn öðrum tveggja þingmanna sinna í kjördæminu miðað við síðustu þingkosningar.
Önnur framboð kæmu ekki manni að samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins. Frjálslyndi flokkurinn fær 3,7%, Borgarahreyfingin 2,5% og Lýðræðishreyfingin 0,9%.