Fótbolti

Beckenbauer: Ribery má fara ef hann vill

Ómar Þorgeirsson skrifar
Franck Ribery.
Franck Ribery. Nordic photos/Getty images

Forráðamenn Bayern München hafa til þessa verið tregir til að sleppa hendinni af Franck Ribery og jafnan sagt að hann sé ekki til sölu, en flest af stærstu félögum Evrópu eru nú talin vera á höttunum eftir franska landsliðsmanninum.

Franz Beckenbauer, forseti Bayern München, segir hins vegar í samtali við þýska dagblaðið Bild að Ribery megi fara ef hann kjósi það.

„Við töluðum um framtíð Ribery á síðasta stjórnarfundi og við vorum allir sammála um það að ef Ribery sjálfur vill fara þá munum við ekki standa í vegi fyrir honum. Við munum þá fara til viðræðna við áhugasöm félög," segir Beckenbauer.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Real Madrid sé í forystu í kapphlaupinu um Ribery en spænska félagið er sagt vera reiðubúið að bjóða Hollendingana Rafel van der Vaart og Wesley Sneijder með í kaupunum.

Hinn 26 ára gamli Ribery gekk til liðs við Bæjara árið 2007 fyrir um 21 milljón punda og skrifaði þá undir fjögurra ára samning en þýska félagið er talið vilja fá helmingi hærra verð fyrir hann núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×