Viðskipti innlent

Rafrænar dagbækur Trackwell í Færeyjum

Steingrímur Gunnarsson Trackwell stefnir á að rafrænar afladagbækur verði í öllum færeyskum fiskiskipum innan tíðar.
Steingrímur Gunnarsson Trackwell stefnir á að rafrænar afladagbækur verði í öllum færeyskum fiskiskipum innan tíðar. Mynd/Anton

„Við ætlum að prufukeyra rafrænu afladagbækurnar í fjórum skipum í Færeyjum í sumar en vonumst til að þær verði settar upp í öllum færeyska fiskiskipaflotanum," segir Steingrímur Gunnarsson, sölustjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Trackwell.

Færeyski flotinn telur áttatíu skip.

Í síðasta mánuði var undirritaður samningur milli fyrirtækis­ins og Føroya Reiðara­felag (Landssamtaka færeyskra útgerðarmanna) um afhendingu á rafrænum afladagbókum um borð í færeyskum fiskiskipum.

Færeyingar hafa unnið að uppbyggingu miðlægs gagnagrunns sem heldur utan um skráningar um fiskafurðir allt frá veiðum til vinnslu og sölu afurða og eru gögn úr afladagbókum Trackwell fyrsti hlekkur keðjunnar.

Ákveðið var að ganga til samstarfs við Trackwell vegna reynslu fyrirtækisins í svipuðum verkefnum, en hugbúnaður frá Trackwell er meðal annars notaður í rafrænar afladagbækur íslenskra fiskiskipa og um næstu áramót eiga öll skip stærri en fimmtán brúttólestir að hafa tekið upp slíkan búnað. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×