Fótbolti

Lukas Podolski: Ég var algjört fífl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Podolski og Michael Ballack.
Lukas Podolski og Michael Ballack. Mynd/GettyImages

Lukas Podolski hefur beðist afsökunar á hegðun sinni í landsleik Þjóðverja og Walesbúa í undankeppni HM í vikunni en Podolski gaf þá fyrirliðanum Michael Ballack vænan kinnhest þegar upp úr sauð á milli þeirra í miðjum leik.

„Ég er búinn að átta mig á því að ég var algjört fífl. Því miður brást ég of harkalega við," sagði Lukas Podolski í viðtali við Bild.

„Þetta mál er yfirstaðið. Ég hef ekkert við Michael Ballack að athuga og við erum búnir að tala saman eftir þetta," sagði Podolski.

Atvikið hefur vakið upp hörð viðbrögð í Þýskalandi og hafa menn eins og Franz Beckenbauer heimtað að framherjanum unga verði refsað fyrir hegðun sína.

Podolski hefur lofað að gefa 5000 evrur til góðgerðamála að beiðni þýska knattspyrnusambandsins en það finnst mörgum ekki vera nægjanleg refsing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×