Skoðun

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn 2009

Afar öflugur jarðskjálfti, 6,1 stig á Richter, skók Suðurland í maí á síðasta ári. Töluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu skjálftaupptökunum. Lítilsháttar skemmdir urðu á Sjúkrahússinu á Selfossi og var það rýmt að hluta. Eftir skoðun kom í ljós að engar skemmdur voru á burðarþoli byggingarinnar og var því hægt að halda uppi eðlilegri starfsemi á sjúkrahúsinu.

Mikilvægt er að byggingar heilbrigðiskerfisins standi af sér hamfarir og neyðarástand til að geta veitt þá þjónustu sem þörf er á. Í ár er alþjóðaheilbrigðisdagurinn tileinkaður áhrifum neyðarástands á sjúkrahús og viðbúnað þeirra en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur upp á daginn 7. apríl ár hvert.

Í tilefni dagsins leggur WHO sérstaka áherslu á að sjúkrahús séu hönnuð til að standa af sér neyðarástand, að þau hafi viðbragðsáætlanir og að þeim séu tryggð nauðsynleg aðföng. Einnig leggur WHO áherslu á að heilbrigðisstarfsfólki sé gert kleift að takast á við afleiðingar neyðarástands.

Á Íslandi hefur verið byggt upp traust viðbúnaðarkerfi til að takast á við náttúruhamfarir og aðrar ógnir. Samkvæmt lögum um almannavarnir er heilbrigðisstofnunum skylt að útbúa viðbragðsáætlanir og er nú unnið að samræmingu þessara áætlana. Ísland er þátttakandi í norrænu samstarfi um heilbrigðisviðbúnað og hefur að auki innleitt alþjóðaheilbrigðisreglugerð WHO sem hefur það að markmiði að hindra alþjóðlega útbreiðslu hættulegra smitsjúkdóma og sjúkdóma af völdum eiturefna og geislavirkra efna.

Á hverjum tíma standa lönd heims frammi fyrir einhvers konar neyðarástandi hvort heldur sem það eru náttúruhamfarir, átök, smitsjúkdómar eða efnahagsþrengingar. Mikilvægt er að heilbrigðisþjónustan sé örugg, öflug, búin réttum aðföngum og tryggð fjármögnun til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem upp koma.

Við getum ekki fyrirbyggt neyðarástand en við getum reynt að tryggja að þegar neyðarástand skapast séum við tilbúin að takast á við það svo það hafi sem minnsta röskun í för með sér.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.








Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×