Nokkur bjartsýni ríkir á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag. Það skýrist af afkomutölum bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs, sem var talsvert betri en spár gerðu ráð fyrir. Helst eru það fjármálafyrirtæki sem draga vísitölur á mörkuðunum upp.
FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur hækkað um 1,34 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 1,92 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi hefur hækkað um 1,8 prósent.
Þá er sömuleiðis talsverð hækkun á norrænum hlutabréfamörkuðum. Mest er hún í kauphöllinni í Ósló í Noregi en aðalvísitalan þar hefur hækkað um 4,71 prósent. Á eftir fylgir vísitalan í kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð, sem hefur hækkaði um 3,67 prósent. Vísitölurnar í Danmörku og í Finnlandi hafa hækkað um tæp þrjú prósent á sama tíma.